2003-01-29 15:35:30# 128. lþ. 68.94 fundur 390#B upplýsingaskylda stjórna hlutafélaga um starfslokasamninga og fleiri sambærilega samninga# (umræður utan dagskrár), Flm. LB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 128. lþ.

[15:35]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Tilefni þessarar umræðu er fréttaflutningur af starfslokasamningi Vátryggingafélags Íslands við fyrrverandi forstjóra þess og yfirlýsingu stjórnar félagsins um að samningurinn sé trúnaðarmál sem komi ekki öðrum við. Það er því erfitt að fjalla um efni samningsins þótt því hafi verið haldið fram í opinberum fréttaflutningi að skuldbindingar félagsins og tengdra félaga nemi 200--250 millj. kr. Það er því eðlilegt að menn velti því fyrir sér hvort verðmyndun á tryggingum sé eðlileg hafi félagið eða dótturfélög þess efni á þessu.

Spurningin sem vaknar er sú hvaða áhrif það muni hafa á trú almennings og fjárfesta á þeim verðbréfamarkaði sem hér hefur verið að myndast ef stjórn félags sem skráð er í Kauphöll Íslands kemst upp með það að gera starfslokasamning upp á tugi eða hundruð millj. kr. án þess að þurfa að gera Kauphöll Íslands grein fyrir gerningnum.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um hvaða áhrif aðgerðir ýmissa forsvarsmanna fyrirtækja í Bandaríkjunum eins og wol.com og Enron o.fl. höfðu á verðbréfamarkaðinn þar í landi. Eftir þá skandala misstu fjárfestar og almenningur trú á markaðnum. Afleiðingarnar eru flestum kunnar. Við þessu var brugðist með lögfestingu mjög strangra reglna um reikningsskil o.fl. sem hafa það að markmiði að tryggja markaðnum eins nákvæmar upplýsingar og kostur er á hverjum tíma um fjárhagslega stöðu skráðra félaga.

Efni starfslokasamninga getur haft mikil áhrif á fjárhagsstöðu félags. Þetta á einkum við ef starfslokasamningur kveður á um skuldbindingar upp á tugi eða hundruð millj. kr. Það er því grundvallaratriði að þeir séu uppi á borðinu. Engin leynd má hvíla yfir slíkum gerningum hjá skráðum félögum.

Sem dæmi um þekktan starfslokasamning má nefna samning sem gerður var við fyrrverandi framkvæmdastjóra General Electric, Jack Wells, sem hafði unnið mjög gott starf fyrir fyrirtækið. En í samningi hans var m.a. kveðið á um matarinnkaup, þvotta, fatahreinsun, blóm, miða á íþróttaviðburði, kokka og þjóna á heimilið, áskriftir að blöðum og tímaritum, fjögur heimili með gervihnattamóttöku, greiðslu veitingahúsareikninga, þotu, þyrlu auk límonsína til viðbótar þeim 16,9 millj. dollara eftirlaunum sem honum voru ætlaðir. Menn geta deilt um það hvort svona samningar eigi rétt á sér eða ekki. Það breytir ekki því að mikill munur er á umræðunni hér annars vegar og í Bandaríkjunum hins vegar. Þar fer umræðan fram um efni samninganna, hvort þeir eru sanngjarnir eða ekki, hvort viðkomandi hafi unnið fyrir hlunnindunum eða ekki, hvort hluthafar félagsins eru sáttir við hann eða ekki. Þar er fjárfestum og hluthöfum ljós sá kostnaður sem fyrirtækið eða dótturfyrirtækið hefur af honum. Kaupendur á bréfum félagsins geta því metið það hvort þeir láta hann hafa áhrif á það verð sem þeir eru tilbúnir til að greiða fyrir bréfin eða ekki.

Það er mitt mat að það sé mjög slæmt ef fyrirtæki sem eru skráð á markaði í Kauphöllinni komast upp með það að fá leynt slíkum samningum. Það grefur undan trausti á markaðnum sem getur haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir efnahagslífið eins og áhrifin í Bandaríkjunum sýndu. Eftir því sem ég kemst næst hefur Kauphöll Íslands ekki kallað eftir þessum samningum. Mér þætti eðlilegt að hún gerði það og léti reyna á viðbrögð stjórnar VÍS og einnig Landssímans sem er vitaskuld á sama báti. Ef stjórnirnar neita væru þær í reynd að mínu viti að grafa undan trausti hjá eigin félögum.

Ekki er síður mikilvægt að tryggja rétt almennra hluthafa við þessar aðstæður. En eins og hlutafélagalögin eru í dag virðast þeir ekki geta gert kröfu um slíka samninga nema meirihlutasamþykkt hluthafafundar liggi fyrir. Það hlýtur því að vera spurning hvort ekki sé nauðsynlegt að styrkja stöðu hins almenna hluthafa í félögum sem skráð eru í Kauphöllinni.

Kjarni málsins er því þessi: Ef félög sem skráð eru á markaði veita ekki nákvæmar upplýsingar um fjárhagsstöðu sína dregur það úr trausti almennings á markaðnum. Markaðurinn er ein helsta uppspretta auðs í samfélaginu sem byggir efnahagslíf sitt á markaðsskipulagi. Það er því aðför að þessu skipulagi þegar grafið er undan trausti á markaðnum með þessum hætti.

Það er því í mínum huga skýlaus krafa til stjórnar VÍS, stjórnar Landssímans og fleiri sem eru að gera slíka samninga, að þeir verði birtir. Það er því spurning mín, virðulegi forseti, til hæstv. ráðherra Framsfl., hæstv. viðskrh., yfirmanns fjármálaeftirlits og verðbréfaviðskipta: Hvernig hyggst hún bregðast við í þeirri stöðu sem upp er komin?