2003-01-29 15:45:56# 128. lþ. 68.94 fundur 390#B upplýsingaskylda stjórna hlutafélaga um starfslokasamninga og fleiri sambærilega samninga# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 128. lþ.

[15:45]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Nú er ég ekki andvígur því að samið sé um starfslok. Því fer reyndar fjarri. Það sem hins vegar vekur reiði hjá fólki, réttláta reiði að því er mér finnst, er að sömu menn og áður hneyksluðust á réttmætum réttindum almenns launafólks hjá hinu opinbera, biðlaunarétti í sex mánuði eða 12 eftir því hver starfsaldurinn var --- og þá aðeins að fólk fengi ekki nýtt starf, annars féll rétturinn niður --- þeir sem hneyksluðust á þessum réttindum sem voru numin brott með lögum árið 1996 misnota núna völd til að hygla hátekjufólkinu, vinum sínum, sem verið er að skáka til og frá úr valdastöðum sem gefa gott í aðra hönd. Þannig er gerður starfslokasamningur við framkvæmdastjóra SH, hann verður stjórnarformaður í Landssímanum hf. og gerir tugmilljóna króna starfslokasamning við forstjórann þar.

Síðan er það VÍS. Þar er hið sama uppi á teningnum í valdabrölti Framsfl. nema að þar er um enn hærri upphæðir að ræða. Og það segir sína sögu að þegar gengið er eftir upplýsingum um þetta efni hjá VÍS er svarið birt í fréttatilkynningu og er á þessa leið: ,,Um er að ræða trúnaðarmál.``

Krafan er: Alla samninga af þessu tagi upp á borðið. Þá fyrst er hægt að taka á málunum. Það er ekki nóg, hæstv. ráðherra, að láta þessa getið í skýrslum og samningum. Það þarf að uppræta þessa spillingu því þetta er spilling.

Við erum að fá fréttir af því núna að Kaupþing sé að kaupa nýtt fyrirtæki á Norðurlöndum. Þar verður 100 manns sagt upp störfum. Ég veit ekki hvort það fólk nýtur starfslokasamninga, almennt fólk eða forstjórinn, en iðulega gerist það að þegar tugum eða hundruðum manna er sagt upp fær fólkið ekki neitt en forstjórarnir fá iðulega samanlagðar arðstekjur þessa fólks. Þetta er spilling og þetta er sukk sem ber að uppræta.