2003-01-29 15:52:53# 128. lþ. 68.94 fundur 390#B upplýsingaskylda stjórna hlutafélaga um starfslokasamninga og fleiri sambærilega samninga# (umræður utan dagskrár), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 128. lþ.

[15:52]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hvað er að gerast í þjóðfélaginu? Fólk er yfir sig gáttað vegna ofurkjara stjórnenda fyrirtækja á almennum opinberum markaði. Þessi ofurkjör dúkka öðru hverju upp á yfirborðið í annars hinum læsta gósenheimi toppanna í stórfyrirtækjum í atvinnu- og fjármálalífinu. Þar hreiðra um sig tugir karla, nokkurs konar yfirstétt í þjóðfélaginu sem í skjóli leyndar hlutafélagalaga og geðþóttaákvarðana skammta sjálfum sér ofurkjör í launum, lífeyri, hlunnindum, biðlaunum og starfslokasamningum sem eru gjörsamlega úr takt við allt sem gerist í íslensku þjóðfélagi. Þessir menn lifa í einhverri veröld sem er til hliðar við raunveruleika íslensks samfélags. Og hverjir borga fyrir paradísina þar sem menn vaða upp fyrir axlir í peningum sem þeir skammta sér sjálfir og vel haldnar stjórnir fyrirtækjanna blessa? Jú, skattpíndur almenningur því öll þessi ofurkjör koma auðvitað fram í verði á vöru og þjónustu, hvort sem er á opinbera eða almenna markaðnum.

Í tilviki forstjóra VÍS kostaði greinilega 100--200 millj. að skipta um forstjóra ef marka má fréttir af því máli. Fyrir það þarf fólk auðvitað að greiða með hærri iðgjöldum, eins og háum bifreiðatryggingum þar sem iðgjöld hafa hátt í tvöfaldast á stuttum tíma. Það kemur því almenningi við hver þessi ofurkjör eru og það kemur Alþingi við sem gæta á hagsmuna fólksins í landinu. Það á líka að koma stjórnvöldum við sem hljóta að þurfa að fara ofan í þetta mál og tryggja að eftirlitsstofnanir og Alþingi, a.m.k. efh.- og viðskn. sem þá væri bundin þagnarskyldu líkt og utanrmn., hefðu aðgang að upplýsingum um ofurkjör þessarar yfirstéttar. Breyta verður líka þingsköpum þegar í stað sem tryggi þingmönnum eðlilegan aðgang að upplýsingum um hlutafélög í eigu ríkisins eins og Samfylkingin hefur lagt til og það gengur ekki að ekki séu settar samræmdar reglur í stjórnkerfinu um starfslokasamninga en engar reglur gilda þar um eins og fram kom í svari forsrh. til mín á síðasta Alþingi.