2003-01-29 16:02:50# 128. lþ. 68.94 fundur 390#B upplýsingaskylda stjórna hlutafélaga um starfslokasamninga og fleiri sambærilega samninga# (umræður utan dagskrár), Flm. LB
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 128. lþ.

[16:02]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir svörin sem hún gaf í umræðunni áðan. En ég verð að segja að það kom mér á óvart að hún skyldi leggjast í vörn fyrir þann gerning sem hér hefur verið rætt um. Af ræðu hæstv. ráðherra mátti ráða að núgildandi lög væru nægileg í þessum efnum.

Það er alveg ljóst að þó að ákvæði séu um að þessar upplýsingar eigi að koma fram í ársreikningum þá geta kaupendur á markaði ekki beðið eftir því hverju sinni að ársreikningarnir komi út og fengið þá að vita hvert efni starfslokasamninga sé. Þess vegna verður að grípa til aðgerða ...

(Forseti (ÍGP): Má ég biðja um betra hljóð í salnum?)

Ætlar virðulegur forseti þá að lengja tímann?

Því verður hæstv. ráðherra að grípa nú þegar til aðgerða sem tryggi að allar upplýsingar liggi fyrir þegar fjárfestar ætla að fjárfesta í félögum og eins upplýsingar af þessum toga. Þess vegna fannst mér skrýtið að hæstv. ráðherra skyldi leggjast í vörn fyrir þessa tilhögun.

Ég tek undir það með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að vissulega þarf að ræða siðferðisþátt þessa máls. Það er spurningin hvort Alþingi eigi að grípa sérstaklega þar inn í. Hlutverk þingsins er fyrst og fremst að tryggja að allar upplýsingar liggi fyrir þegar menn fjárfesta í félögum skráðum á markaði. Þá þarf ekki síst að hafa í huga þá miklu gagnrýni sem m.a. hefur komið fram í Bandaríkjunum á að í stjórnum þessara félaga sitja oftar en ekki forsvarsmenn annarra fyrirtækja sem eiga mikil viðskipti við það fyrirtæki sem þeir sitja í stjórn fyrir. Það er sérstakt ef þessir aðilar gera síðan, þessi fámenni hópur, samninga hver við annan um óheyrileg starfslok. Það er til þess fallið að draga úr trú manna á markaðnum og það viljum við ekki sem höfum trúað á að markaðurinn sé rétta leiðin í þessum efnum.