Hugmyndir um virkjun að fjallabaki

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 10:33:45 (3206)

2003-01-30 10:33:45# 128. lþ. 69.91 fundur 391#B hugmyndir um virkjun að fjallabaki# (aths. um störf þingsins), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[10:33]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Hv. þingmanni er nóg boðið, heyri ég. En staðreyndin er sú að þetta svæði hefur verið til athugunar og rannsókna í áratugi. Það er hlutverk þessa fyrirtækis, Landsvirkjunar, að virkja og skaffa orku. Það sem hefur verið nú til umræðu og hefur verið í fréttum eru ekki nein skilaboð frá iðn.- og viðskrn. Fyrirtækið hlýtur að hafa rétt á því að skoða alla möguleika. Eins og við þekkjum fer allt sem gert er í gegnum mat á umhverfisáhrifum. Það eru ekki nema þreifingar sem þarna eiga sér stað og ég held að hv. þingmaður eigi ekki að taka þetta svo að búið sé að taka neinar ákvarðanir. Mér er kunnugt um að þetta er friðland og þannig er einnig um Þjórsárver og fleira mætti nefna.

Hv. þm. má ekki gefa sér það á þessu stigi að þarna sé verið að taka ákvarðanir um að virkja þetta svæði. Það er svo langt frá því. Þetta er bara hluti af því að fara með mál inn í ákveðið ferli sem lög og reglur kveða á um. Síðan verðum við að sjá til með framhaldið.