Hugmyndir um virkjun að fjallabaki

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 10:39:39 (3209)

2003-01-30 10:39:39# 128. lþ. 69.91 fundur 391#B hugmyndir um virkjun að fjallabaki# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[10:39]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mér þóttu svör hæstv. iðnrh. rýr í roði. Að vísu er rétt að menn hafa lengi vitað af mikilli orku á Torfajökulssvæðinu en það er jafnljóst að í 25--30 ár hafa menn einmitt horft til þess svæðis sem kannski þess af háhitasvæðunum sem síðast og helst aldrei yrði hróflað við. Fyrir svo löngu síðan þegar ég var að nema jarðfræði í Háskóla Íslands var þetta svæði gjarnan nefnt sem það svæði sem sennilega yrði síðast sátt um af háhitasvæðunum að farið yrði með framkvæmdir inn á. Það eru nógir aðrir augljóslega betri kostir í umhverfislegu tilliti í háhitanum sem vissulega er gott að menn skoði ekki síður en fallvötnin, a.m.k. ef menn hafa þá reglu að byrja þar á versta endanum, að bera fyrst niður í þeim virkjanakostum fallvatna sem koma verst út umhverfislega. Ég nefni stækkun Kröflu þar sem er mikil ónýtt orka. Ég nefni Öxarfjörð, Þeistareyki. Ég nefni öll svæðin sem Hitaveita Suðurnesja hefur á Reykjanesinu og ég nefni Orkuveitu Reykjavíkur með Hengilssvæðið. Hvað gengur Landsvirkjun til? Það skyldi þó ekki vera að Landsvirkjun væri að helga sér land í ljósi væntanlegrar samkeppni í orkumálum? Þá er ekkert heilagt. Við hverju er að búast af fyrirtæki sem þegar beinir öllum spjótum sínum að friðuðum löndum, friðlýstum svæðum, Kringilsárrana og Þjórsárverum? Jú, það er rökrétt að þeir fari næst í friðland að fjallabaki frekar en horfa til annarra háhitasvæða sem ekki eru friðlýst. Það er athyglisverð stefna, herra forseti, hjá þessu fyrirtæki að horfa fyrst og fremst til friðlýstra svæða sem hafa verið svo um 20--25 ára skeið.

Landsvirkjun er opinbert fyrirtæki. Hún er ekki einhver einkaaðili úti í bæ sem er hæstv. viðskrh. og Framsfl. óviðkomandi. Jóhannes Geir Sigurgeirsson, fyrrum þingmaður Framsfl., er þar stjórnarformaður og hún virðist stundum vera býsna stutt, taugin á milli Framsfl. og Landsvirkjunar þegar það á við. Hæstv. ráðherra getur ekki fríað sig frá málinu með þeim hætti sem reynt var áðan.