Hugmyndir um virkjun að fjallabaki

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 10:41:54 (3210)

2003-01-30 10:41:54# 128. lþ. 69.91 fundur 391#B hugmyndir um virkjun að fjallabaki# (aths. um störf þingsins), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[10:41]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég heyri að Landsvirkjun er ekki sérstaklega vinsælt fyrirtæki í þessum þingsal á þessum fundi. Það verður þá bara að vera svo. En varðandi þessi virkjanamál heyri ég æðioft sagt að aðrir kostir séu betri. Það var líka sagt þegar farið var í Blöndu, að ekki ætti að fara í þá framkvæmd heldur ætti að virkja austur á landi, þar væru jökulvötn sem ætti að virkja frekar en að fara í Blöndu. Svo er farið austur á land og þá á ekki að fara í þá framkvæmd og svona gengur þetta oft koll af kolli.

Í sambandi við það sem hér er til umfjöllunar er það bara þannig að þetta mál er ekki rekið af iðnrn. Við höfum látið þá skoðun í ljósi að ekki sé tímabært að fara í rannsóknir eða framkvæmdir á þessu svæði. Ég veit að þarna er gífurleg orka, það vantar ekki. Þetta er óþarfaupphlaup að mínu mati. Ég get a.m.k. ekki tekið á mig neina ábyrgð í sambandi við þennan fréttaflutning sem nú hefur átt sér stað og það sem komið hefur frá Landsvirkjun enda er Landsvirkjun sjálfstætt fyrirtæki eins og allir vita. Þar er stjórn sem fer með stjórn þess fyrirtækis og það er ekki rekið sem eitthvert útibú úr iðnrn. Þetta er ekki þannig, og það veit hv. þm.