Raforkulög

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 11:07:49 (3213)

2003-01-30 11:07:49# 128. lþ. 69.1 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[11:07]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Í Morgunblaðinu nú á haustdögum birtist athyglisverð grein sem bar yfirskriftina ,,Raforkufrumvarp í vanda``. Það sem gerði hana athyglisverða var auðvitað það að höfundur greinarinnar er hv. þm. Björn Bjarnason, áður ráðherra Sjálfstfl. í ríkisstjórn, sem í tvígang samþykkti að leggja þetta frv. fram sem stjórnarfrv. og þá jafnframt að falla frá fyrirvörum gagnvart tilskipun ESB.

Gagnrýni hv. þm. í þessari grein var sú að frv. væri einungis að litlum hluta byggt á Evrópurétti. Það var vandinn. Hann segist fyrir nokkru hafa lýst andstöðu við frv. og leggur til þá leið að lagt verði fram frv. sem einungis tæki til efnis Evrópuréttarins, að ekki sé verið að blanda öðrum breytingum á raforkulöggjöfinni saman við þau mál.

Herra forseti. Ég held að það væri gott fyrir umræðuna sem fram fer í dag að hæstv. ráðherra segði okkur hver viðbrögð hennar eru við þessum fullyrðingum fyrrum samstarfsmanns í ríkisstjórn og stjórnarþingmanns. Er það gagnrýni af þessu tagi, herra forseti, sem hefur haft áhrif á það hversu illa hefur gengið að koma frv. fram og hversu seint það er komið fram og að hluti þess verður ekki afgreiddur heldur settur í nefnd? Hvaða hluti frv. er þá byggður á Evrópurétti og er hægt að greina þann hluta frá öðrum hlutum frv.? Eða hverju er verið að blanda saman sem gerir blönduna svona ókræsilega að mati hv. þm. Björns Bjarnasonar?