Raforkulög

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 11:11:42 (3215)

2003-01-30 11:11:42# 128. lþ. 69.1 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[11:11]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Já, hæstv. ráðherra er sátt við frv. sem hér liggur frammi. En hvað með aðra stjórnarþingmenn? Hvert nær samstaða stjórnarflokkanna um málið? Ég sé að hér er í salnum hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sem einnig hefur opinberlega lýst yfir andstöðu við málið og mun væntanlega skýra hana betur hér á eftir.

Er meiri hluti í ríkisstjórninni fyrir þessu máli? Er meiri hluti stjórnarliðsins fyrir málinu? Það er ljóst að viðkvæmir og stórir þættir þessa máls fara til nefndar. Er það leið til þess að sætta ríkisstjórnina og þar með yfirlýsing um að ríkisstjórnin hafi ekki þrek til að afgreiða málið vegna þess að augljóst er að endanleg afgreiðsla þess bíður nýrrar ríkisstjórnar?

Herra forseti. Ég held að það væri gagnlegt, eins og ég sagði áðan, að þetta yrði upplýst í upphafi umræðunnar vegna þess að hér er ekkert smámál á ferðinni. Á ferðinni er frv. sem leggur grunn að gerbreytingu raforkumarkaðarins. Og ef hæstv. ríkisstjórn ekki hefur þrek til þess að klára málið, eins og greinilega er að koma hér fram, þá held ég að gott sé að það komi fram vegna þess að það breytir auðvitað svolítið því hvernig menn takast á við málið í þinginu.