Raforkulög

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 11:19:18 (3221)

2003-01-30 11:19:18# 128. lþ. 69.1 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[11:19]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið hjá hæstv. ráðherra hefur frv. til nýrra raforkulaga tvisvar verið lagt fram á Alþingi án þess að vera rætt, þ.e. bæði á 126. og 127. þingi. Í fyrra skiptið náði það þó að fara til nefndar sem vann nokkuð með það. En á síðasta þingi var það bara sýnt. Við þingmenn höfðum velt fyrir okkur, einkum þingmenn sem sitja í iðnn., hvað valdi þessari töf. Ekki síst var það á liðnum vetri þar sem okkur varð ljóst að frv. hafði allar forsendur til að koma fram fyrr.

Herra forseti. Það er nokkuð ljóst að þetta mál hefur lent í þæfingi millum stjórnarflokkanna. Miðað við það frv. sem hér liggur fyrir er ljóst að ríkisstjórnin hefur ekki þrek til að takast á við frv. Þess vegna er það sent hingað inn í þeim búningi að ákveðin atriði verði gerð að lögum núna, ef til þess næst meiri hluti Alþingis, en annað verði sent til nefndar og vinnist þar og bíði þá þess að ný ríkisstjórn takist á við það.

Eins og fram kom og margoft hefur verið ítrekað, og er að hluta til sú pressa sem gerir það þó að verkum að frv. kemur fram, á frv. að svara efni tilskipunar frá Evrópusambandinu sem Alþingi samykkti að fella inn í EES-samninginn vorið 2000. Með þeirri samþykkt, herra forseti, má segja að Alþingi hafi lagt grunninn að þeim breytingum sem hér er verið að fjalla um þannig að það á ekki algjörlega að koma mönnum í opna skjöldu hvert efni frv. er, hver undirstaða þess er eða hugmyndafræði.

Þetta átti að vera búið að innleiða í íslensk lög hinn 1. júlí sl. Því er ekki seinna vænna, herra forseti, að Alþingi gangi til þeirra verka sem nú bíða þó það sé gert með þeim hætti sem hér liggur fyrir.

Samkvæmt frv. ber að tryggja forsendur samkeppni í sölu og vinnslu raforku og þar eru lagðar til reglur sem eiga að tryggja jafnræði aðila til vinnslu og sölu raforku og jafnan aðgang að flutnings- og dreifikerfi. Flutningur og dreifing orkunnar eru skilgreind sem náttúrlegir einokunarþættir þar sem ekki er gert ráð fyrir nema einu kerfi sem allir framleiðendur og notendur hafi aðgang að. Eitt fyrirtæki mun stýra flutningi orkunnar um landið en mörg geta dreift henni á afmörkuðum svæðum. Samkeppnin verður annars vegar á milli þeirra sem framleiða orkuna, orkuframleiðslufyrirtækjanna, og síðan á milli þeirra sem selja hana á hinum mismunandi dreifingarsvæðum, smásalanna í raforkunni.

Samfylkingin er í sjálfu sér ekki á móti þeim anda frv. að forsendur verði skapaðar fyrir samkeppni á þeim sviðum þar sem hún á við. Öll viðleitni í þá átt að skapa jafnræði á markaði og gegnsæi ákvarðana er af hinu góða. Vonandi tekst farsælt samkomulag einhvern tíma, herra forseti, um það hvernig orkuverð verður jafnað gagnvart þeim sem ella byggju við dýrustu orkuna. Frv. um þann þátt er ekki komið fram enn. Það er hluti af nefndarstarfinu mikla.

Við höfum fylgst með því á undanförnum árum hvernig fyrirtæki á orkumarkaði hafa verið að undirbúa sig undir væntanlegar breytingar og samkeppni á markaði, m.a. með því að kalla eftir breytingum á rekstrarformi sínu, og Alþingi hefur stutt þá viðleitni með viðeigandi lagabreytingum. Samfylkingin hefur jafnan stutt þær breytingar. Við höfum síðan séð fyrirtæki á orkumarkaði sameinast og við vitum af bollaleggingum og ákvörðunum um enn frekari sameiningar og Landsvirkjun hefur fyrir meira en tveimur árum stofnað sérstakt flutningasvið þar sem rekstur þess er aðgreindur frá öðrum rekstri. Þannig reyna forsvarsmenn þessara fyrirtækja að tryggja stöðu þeirra í nýrri og breyttri veröld sem menn sjá þó kannski ekki alveg fyrir enn. Vandi fyrirtækjanna og Alþingis, sem nú fær loks að takast á við hluta þessa máls, er auðvitað sá að ekki liggur fyrir hvernig efnið mun endanlega ríma við hinn íslenska veruleika og það er vegna bráðabirgðaákvæðis um hlutverk nefndarinnar sem á, herra forseti, að gera tillögu um fyrirkomulag flutnings raforku, þar með talið um stærð flutningskerfisins og þá væntanlega í leiðinni stærð dreifikerfisins. Það er ekkert smámál þar. Nefndin á að gera tillögur um hvernig rekstri flutningskerfisins og kerfisstjórn skuli háttað þannig að öryggi, skilvirkni og hagkvæmni kerfisins verði sem best tryggð. Nefndin á líka að móta tillögur um uppbyggingu gjaldskrár fyrir flutning raforku og tillögur um það hvernig hætti eigi að jafna kostnað vegna flutnings og dreifingar raforku á hinu dreifbýla Íslandi þar sem þetta eru auðvitað lykilþættir. Þetta, herra forseti, er hinn félagslegi þáttur sem vikið var að áðan. Við sem eigum að vinna að málinu í iðnn. hljótum að velta því fyrir okkur hvert okkar hlutverk verður gagnvart þessum atriðum sem eru skrifuð inn í texta frv. að hluta en eiga samt sem áður að vinnast áfram í nefnd.

Það hefur komið fram hjá hæstv. iðnrh. að talið var að upptaka tilskipunarinnar styrkti stefnu stjórnvalda hvað varðaði þróun og breytingar á raforkumarkaði enda hafði komið fram að engin vandkvæði væru á upptöku hennar. Þau vandkvæði sem við höfum þó horft framan í eru e.t.v. fyrst og fremst pólitísk, þ.e. það hefur gengið ótrúlega brösuglega fyrir hæstv. ráðherra að leggja frv. fram. Í haust var haft eftir ráðherranum að metnaður hennar stæði til þess að klára málið þannig að það yrði að lögum fyrir áramót. Frv. var hins vegar ekki dreift fyrr en rétt fyrir jólahlé. Það var þó lagt fram það tímanlega að von ætti að vera til að það hljóti afgreiðslu Alþingis fyrir vorið, þá með stóru þættina tekna undan þar sem ekki virðist vera um þá samkomulag.

Herra forseti. Ég vék að því í andsvörum áðan að það er greinilega ekki eining í stjórnarliðinu um efni raforkulagafrv. og það er miður að ekki skuli hafa náðst samstaða um þær miklu breytingar sem fyrirhugaðar eru á rekstrarumhverfi orkufyrirtækjanna. Það er auðvitað mikilvægt að um svo stórt mál sé samstaða. Hins vegar er það kannski ágætt að það bíði næstu ríkisstjórnar að ganga frá þessu máli. Þarna inni eru þættir sem hugsanlega verða betur komnir í höndum annarrar ríkisstjórnar en þeirrar sem nú situr. Vandinn er hins vegar sá, herra forseti, að málið er búið að bíða nokkuð lengi. Það hefur tafist hvað eftir annað. Á meðan bíður orkugeirinn þess sem verða vill og aðrir þeir sem hagsmuna eiga að gæta.

Já, það vakti sannarlega athygli þegar Björn Bjarnason, fyrrum ráðherra í ríkisstjórn sem stóð að framlagningu frv. í tvígang sem stjfrv., fór fram með þeim hætti sem ég ræddi um áðan. Hann var sem sé orðinn á móti málinu þótt hann hefði samþykkt að leggja það fram og samþykkt að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara vegna tilskipunarinnar, eins og hæstv. ráðherra orðaði það á Alþingi vorið 2000. Nú vildi þessi sami Björn leita undanþágu frá málinu, undanþágu frá eigin ákvörðun á Alþingi, undanþágu frá eigin ákvörðunum í ríkisstjórn, undanþágu frá ákvörðunum þingflokks Sjálfstfl. Eins og ég vék að, herra forseti, hefur flokksbróðir hans, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, sömuleiðis farið fram gegn málinu. Hann er nú hér staddur og mun væntanlega skýra það fyrir okkur á eftir í hverju hans andstaða liggur.

Það hefur satt að segja verið kostulegt að fylgjast með þeim félögum biðja um þessar undanþágur frá eigin verkum og er það ekki til þess fallið að styrkja málið eins og búningur þess er núna.

Margoft hefur verið bent á sérstöðu íslenska raforkumarkaðarins. Markmið frv. er að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmri nýtingu orkulinda í því skyni að efla atvinnulíf og byggð í landinu, eins og þar segir, og svo að uppfylla hinar alþjóðlegu skuldbindingar.

Herra forseti. Ísland hefur sérstöðu. Við erum ekki hluti af innri markaði heldur lítið einangrað orkukerfi þar sem um 70% orkunnar fara til stóriðju með langtímasamningum --- það er ekki mikið eftir til að bítast um --- 90% þegar Kárahnjúkavirkjun verður komin í gagnið, herra forseti. Enn minnkar það sem hægt er að berjast um á smásölumarkaðnum. Þessi sérstaða og önnur hefur kallað á ýmsar spurningar og efasemdir. Þessar spurningar og efasemdir hafa bæði fundist hjá stjórnmálamönnum í stjórn og stjórnarandstöðu og í hópi þeirra sem vinna í raforkugeiranum og tilheyra hinum ýmsu orkufyrirtækjum, en þar hafa verið afar skiptar skoðanir um innihald frv. og fer það nokkuð eftir því á hvaða hól viðkomandi stendur. Þó að stór ágreiningsefni séu komin í nefnd eru þau ekki leyst.

[11:30]

Bent hefur verið á að erfitt geti orðið um samkeppni í raforkuframleiðslu þegar eitt fyrirtæki yfirgnæfi á markaðnum og sé auk þess búið að tryggja sér alla hagkvæmustu kostina á næstu árum. Ekki stendur til að hrófla við því eins og þegar hefur komið fram. Menn efast um raunverulega samkeppni framleiðenda þar sem Landsvirkjun eigi nú þegar rjómann af virkjunum landsins og hafi tryggt sér það besta á næstu árum, eins og sagt var í mín eyru. Um þetta var talað hér í upphafi þingfundar, herra forseti, undir þeim formerkjum að mikið kapphlaup væri í gangi um virkjanakostina. Mér finnst að Alþingi verði að kannast við ábyrgð sína í þeim efnum. Landsvirkjun hefur jú haft ákveðna lagalega skyldu til að hafa hér ávallt næga raforku til að afhenda bæði almenningsveitum og stóriðjuverum ef eftir er kallað. En það réttlætir þó ekki með hvaða hætti fyrirtækið fer í virkjanir eða krakar að sér virkjanakostum á hverjum tíma.

Hin fyrirtækin hafa fyrst og fremst haft áhyggjur af þessum yfirburðum Landsvirkjunar á framleiðslumarkaðnum. Auðvitað hljótum við að hafa áhyggjur af því einnig. Á móti hefur verið bent á að Landsvirkjun hafi enga samkeppnisstöðu á dreifingar- eða smásölumarkaði þar sem fyrirtækið hafi samkvæmt lagafyrirmælum einungis verið í að framleiða raforku, flytja hana, selja til stóriðju og síðan til smásala. Komið hafa fram hugmyndir um að til að af samkeppni geti orðið þurfi annaðhvort að hluta Rarik og þá Landsvirkjun í sundur, og þannig að stíga skrefið til fulls, ellegar fara í algjörar lágmarksbreytingar.

Það eru fleiri álitaefni og ábendingar sem hafa komið fram. Býsna margir fullyrða að raforkuverðið muni hækka. Upphaflega höfðu menn mestar áhyggjur af þeirri óhagkvæmni sem kæmi af því að skipta þurfi fyrirtækjunum upp, þó ekki væri nema bara bókhaldslega. Svo hafa menn áhyggjur af auknum eftirlitskostnaði og aukinni arðsemiskröfu. Einnig hafa komið fram áhyggjur af því hvernig taka skuli á óarðbærum einingum og hvort jöfnun raforkuverðs eigi að koma með sérstöku framleiðslugjaldi eða af skattfé.

Menn hafa áhyggjur af því hver niðurstaðan verður fyrir neytendur, áhyggjur af því hvernig hinum félagslega þætti verður endanlega fyrir komið. Menn hafa velt vöngum yfir því hvort hægt væri að stofna orkumarkað sem allir seldu inn á og keyptu af til að tryggja betri samkeppnisforsendur. Menn hafa velt fyrir sér hvort það sé raunverulegur vilji til að efna til raunverulegrar samkeppni á markaði eða hvort hér sé frekar á ferðinni hliðstæða frv. sem ríkisstjórnin lagði fram og fékk samþykkt sem lög varðandi Landssímann og ætlaði síðan að selja hann, þ.e. að það stæði kannski fyrst og fremst til að breyta örlítið um fyrirkomulag, viðhalda kerfinu í stórum dráttum en hugsanlega í eigu annarra.

Þetta eru allt þættir sem þarf að gaumgæfa, herra forseti. Þeir skipta verulegu máli. Það skiptir verulegu máli fyrir neytendur hvernig þetta kerfi kemur til með að líta út og virka.

Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra hefur frv. verið skoðað og gaumgæft. Það hefur breyst nokkuð frá því að það var upphaflega lagt fram, m.a. er virkjanaleyfi nú ótímabundið. Ef fyrirtæki fær virkjanaleyfi er það ótímabundið en upphaflega var gert ráð fyrir virkjanaleyfi til 50 ára, skv. 4. gr. beggja frv. Það virkjanaleyfi sem átti að vera til 50 ára hefði fallið úr gildi eftir fimm ár ef fyrirtækið hefði ekki hafið framkvæmdir. Það var ekki hægt að lúra á leyfinu lengur. Það átti síðan að geta fallið úr gildi eftir tíu ár ef ekki væri kominn í gang rekstur. Það var sem sé, herra forseti, hugsað fyrir því að menn gætu ekki krakað að sér virkjanaleyfum og lúrt síðan á þeim heldur þyrfti að vera ákveðin hreyfing á þessum markaði.

Eins og ég sagði er virkjanaleyfið ótímabundið og búið að færa árin fimm upp í tíu, þ.e. á þeim tíma fellur leyfi út ef ekki eru hafnar framkvæmdir, og 15 árum hefjist ekki rekstur. Þar með getur Landsvirkjun verið rólegri gagnvart þeim virkjanakostum sem þegar er búið að ánafna fyrirtækinu, sem og önnur orkufyrirtæki.

Herra forseti. Sem fylgifrv. þessa frv. eru frv. um breytingar á öðrum orkulögum sem þurfa að koma til jafnhliða. Ef þau frv. verða að lögum, þau munum við ræða hér síðar í dag, mun m.a. lagaumhverfi Landsvirkjunar taka nokkrum breytingum og af fyrirtækinu létt þeim skyldum sem það hingað til hefur haft varðandi það að hafa ávallt raforku til reiðu þegar almenningsveitur eða stóriðjufyrirtæki telja sig þurfa.

Þetta lagaákvæði hefur sett ákveðnar skyldur á fyrirtækið en auðvitað líka veitt því ákveðinn forgang. Það hefur gert að verkum að fyrirtækið hefur haft ákveðna afsökun, ef nota má það orð, fyrir því að skoða virkjanakosti um allt land, því að landið er jú allt undir, m.a. þá kosti sem fréttir bárust af í morgun. Fyrirtækið hefur ávallt getað borið því við að á því hvíldu þær lagaskyldur að það yrði að rannsaka, skoða og vita hverjir möguleikarnir væru.

Þetta verður rætt síðar dag, herra forseti, og hvaða áhrif þessar breytingar muni hafa á umhverfið og gætu haft á ýmislegt af því sem nú er í pípunum, bæði varðandi orku til nýrra stóriðjuvera og þess sem þegar er vitað og sömuleiðis varðandi aðra þá þætti er lúta að breytingum á orkumarkaði.

Herra forseti. Iðnn. mun hafa ærið verkefni þegar þetta frv. kemur fyrir hana. Það verkefni er þó kannski svolítið snúið vegna þess að stór og viðkvæmur hluti þess verður settur í nefnd eins og áður hefur komið fram. Eigi að síður eru ýmis atriði sem þarf að gaumgæfa eins og ég hef hér rakið og hef þó ekki farið yfir nema brot af efni frv.