Raforkulög

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 11:37:53 (3222)

2003-01-30 11:37:53# 128. lþ. 69.1 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv., EOK
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[11:37]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið hjá framsögumanni er það rétt að þetta mál hefur nokkuð lengi verið á döfinni. Það hefur verið kynnt mjög víða og fengið mikla umræðu. Skemmst er frá því að segja, eins og fram hefur komið, að þetta er heildarendurskoðun raforkulaganna en hugsunin á bak við hana og ástæðan fyrir henni er náttúrlega tilskipun frá EES, 96/94, sem við lögleiddum hér vorið 2000.

Það er líka rétt sem komið hefur fram að þegar þessi tilskipun var fyrst rædd og skoðuð af opinberum aðilum þá fögnuðu henni mjög margir fagaðilar, sérstaklega Orkustofnun og fleiri. Þeir töldu hana mjög til góðs og ávinnings fyrir Ísland. Þannig var þetta kynnt og þannig voru fyrstu umræðurnar um það, að hér væri komið ágætismál sem mundi gagnast okkur vel.

Þessi tilskipun Evrópusambandsins er, í ljósi hagsmuna Vestur-Evrópu, mjög eðlileg. Hún stuðlar að því sem skiptir öllu máli fyrir Vestur-Evrópu, stuðlar að því að bæta samkeppnisaðstöðu þess heimshluta. Þar eru náttúrlega þúsundir og tugir þúsunda framleiðenda og dreifenda. Þar eru milljónir og aftur milljónir neytenda. Með það mikla þéttbýli og öll þau landamæri er mjög eðlilegt að þeir reyni að koma á þessari skipan. Hún þjónar örugglega þeirra hagsmunum miðað við þeirra aðstæður. Um það efast enginn, að hún sé rétt til komin og þeir séu að gera rétt fyrir sína hagsmuni.

En þegar við lítum á Ísland, þ.e. þetta stóra land, 103 þús. ferkílómetra með 290 þús. íbúum, blasir náttúrlega við okkur gjörsamlega önnur veröld en sú í Vestur-Evrópu. Við búum í mjög dreifðum byggðum meðfram allri strandlengjunni og dálítið fram til dala sums staðar. Um veturna hefur veðurfarið reynst okkur ákaflega erfitt varðandi raforkuflutninga. Áratugum saman gegnum rafvæðingu Íslands höfum við fyrst og fremst reynt af fremsta megni að tryggja raforkuflutningana um allt land og öryggi í raforkuflutningum sem við verðum alltaf háðari og háðari með hverjum áratugnum sem líður.

Ég held að þegar menn skoða þetta, þann gríðarlega mismun sem er þarna á aðstæðum, geti allir séð að hér er ekki um sambærilega hluti að ræða, ekki á nokkurn hátt. Það er að vísu rétt að við lögleiðingu þessara tilskipana var ekki gerður neinn fyrirvari af Íslands hálfu. Það ætla ég að hafi stafað af því að menn eru ekkert á varðbergi, eins og oft gerist. Menn eru stundum ekki vakandi fyrir því sem er að gerast. Það er þó betra seint en aldrei.

Við vitum það varðandi stækkun Evrópusambandsins að þar á bæ hafa menn ekkert við það að athuga að sérstök raforkukerfi sem eru ekki tengd Vestur-Evrópu á nokkurn hátt, samanber á eyjunum Möltu og Kýpur, búi við sérsamninga. Það liggur alveg fyrir. Að vísu ætla ég að það sé rétt hjá hæstv. iðnrh. að ekki sé nokkur leið að fá undanþágu varðandi framleiðsluþáttinn. Ég tek því þannig og trúi að það sé alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra, enda er það ekki það sem veldur okkur vandræðum. Það væri allt í lagi þó að við færum ekki fram á neina undanþágu varðandi framleiðsluþáttinn. Það sem við þurfum að gera, ég er sannfærður um að við eigum að gera það, er að sækja um undanþágu varðandi flutninginn og dreifinguna.

Ég trúi því og tel mig hafa ýmislegt fyrir mér í því að slík undanþága fyrir Ísland væri auðsótt. Svo sérstakir eru hagsmunir okkar, svo sérstök er lega okkar og svo langt frá því að við tengjumst nokkuð Vestur-Evrópu í raforkumálum. Komi til slíkra hluta einhvern tíma í framtíðinni bíður það þess tíma og þá er nógur tími til að ræða það.

Ég lít þannig á, herra forseti, og út á það hafa athugasemdir mínar alla tíð gengið, að það sem skiptir landsbyggðina og dreifbýlið öllu máli sé öryggi í flutningi og að menn tryggi að grundvöllur jöfnunar á raforkukostnaði sé skýr, fari ekki á milli mála og sé breiður, þ.e. að allir taki þátt í honum. Ég er sem sagt sannfærður, herra forseti, um að samkeppni í flutningi og dreifingu á raforku á Íslandi sé fjarstæða. Ég tel að aldrei muni koma til þess og það muni aldrei skila okkur nokkrum árangri. Hins vegar liggur fyrir að slík uppsetning, eins og menn hafa verið að gæla við á undanförnum árum, mun kosta okkur gríðarlegt fé í eftirliti. Fyrir það mun enginn borga nema neytandinn. Það mun allt koma niður á neytendum. Sú breyting, að ætla að reyna einhverja samkeppni þarna getur aldrei haft annað í för með sér en hækkun á raforkuverði.

Menn hafa nefnt ýmsar tölur varðandi þetta. Ég ætla samt ekki, herra forseti, að nefna neina tölu. Þessar tölur eru alveg óráðnar. Við getum ekki nefnt þær með neinni vissu. Ég vil þó, herra forseti, minna á að reynslan, bæði hérlendis og erlendis, varðandi þróun eftirlitskostnaðarins er á einn veg. Það stendur eftir að menn höfðu ekki ímyndunarafl til að gera sér grein fyrir í hvílíkar himinhæðir eftirlitsiðnaðurinn gæti stigið. Sá kostnaður hefur alltaf reynst miklu hærri en nokkur lét sér detta í hug. Þannig hefur þetta verið erlendis og þannig er hin íslenska reynsla. Það er ekki langt að sækja hana. Við getum nefnt stofnanir eins og heilbrigðiseftirlitið og matvælaeftirlitið, ég tala nú ekki um Fiskistofu o.s.frv. Þetta er alltaf í himinhæðum, hundrað sinnum, þúsund sinnum stærra en maður lét sér detta í hug frá því að skipan mála var ákveðin. Ég ætla ekki að nefna neina tölu. Ég er sannfærður um að hið sama muni gerast í þessu tilfelli varðandi eftirlit með raforku eins og í öðrum þáttum. Það mundi verða miklu hærra en nokkrum manni dettur í hug.

[11:45]

Herra forseti. Í frv. er þessi þáttur, flutningur og dreifing, settur í ákveðna nefnd og henni er ætlað að koma með skipan í þetta mál. Ég tel að þetta sé grunnatriðið fyrir íbúa alls dreifbýlisins, grunnatriði sem skiptir öllu máli fyrir það og því get ég ekki samþykkt að skilja þetta eftir í einhverri nefnd. Ég tel að þetta sé verkefni númer eitt sem þingið, hið háa Alþingi á að takast á um. Það sem við eigum að afgreiða hér er sá þáttur. Ég hef ekkert á móti þeirri skipan sem kemur hér fram um sölu og framleiðslu á raforku, ég hef ekkert á móti mjög mörgu af því sem er í frv. Ég er alveg sannfærður um að þessi heildarlöggjöf er að mörgu leyti mjög góð og mjög þörf en ég tel að Alþingi eigi að taka þennan þátt fyrir líka og eigi að horfa til þess að engin von sé til þess að samkeppni á þeim þáttum, þ.e. flutningnum og dreifingu, geti skilað okkur neinum árangri, þ.e. af neinni hagkvæmni. Ég er alveg sannfærður um það, herra forseti, að allt varðandi dreifingu og flutning eigum við að hafa í einu fyrirtæki sem ég tel eðlilegt að sé í höndum ríkisins, hins opinbera, og þar séu mjög ákveðnar reglur um að við ætlum að jafna raforku, við ætlum að láta alla standa að þeirri jöfnun þannig að ekkert fari á milli mála hver sé hugur og vilji Alþingis. Þannig tel ég að við eigum að gera það. Þannig tel ég að iðnn. muni taka á þessu máli og ég er sannfærður um það, herra forseti, að þegar hv. iðnn. fer í gegnum þessa hluti mun hún komast að því að mjög margir aðilar hafa á undanförnum missirum og árum verið að skoða þetta.

Niðurstaða allra sem ég þekki er sú að það að láta sig dreyma um samkeppni í flutningi og dreifingu getur aldrei haft í för með sér annað en vandræði og kostnað þannig að við eigum og við getum á þessu þingi, herra forseti, staðið að hlutum sem við getum orðið þverpólitískt sammála um. Ég trúi því. Hér liggur mjög mikið við að iðnn. fari nákvæmlega ofan í þetta. Hún á að vinna þetta með hæstv. iðnrh. og ég fullyrði líka, eins og ég gerði áðan, að það á að sækja um undanþágu frá þessari tilskipun. Það verður hægt því að það er ekki verið að skerða neitt af því sem fyrir Evrópusambandinu vakir. Þeir eru að treysta sinn grundvöll, þeir eru að treysta samkeppnishæfni fyrirtækja sinna miðað við sínar aðstæður. Og að sjálfsögðu er eðlilegt að Ísland hafi sömu sjónarmið þegar það gengur frá sinni raforkulöggjöf: að treysta grundvöll byggðanna, treysta grundvöll atvinnufyrirtækjanna, að þau geti fengið raforku sem við náum fram með hagkvæmni. Það getum við eflaust gert í framtíðinni gagnvart raforkuframleiðslunni. Þó að það sé kannski ekki í augsýn í dag trúi ég því að það muni koma og það muni leiða okkur til gæfu og betri samkeppnisaðstöðu íslenskra atvinnufyrirtækja. Það er því rangt, herra forseti, eða misskilningur sem kom fram hjá hæstv. iðnrh. áðan þar sem upplýsingar hennar voru ekki réttar, henni hefði verið sagt að frá þingflokki Sjálfstfl. hefði þetta verið afgreitt án athugasemda. Það er ekki rétt. Í afgreiðslu þingflokks Sjálfstfl. liggur fyrir mjög skýrlega bókað að með þessu fyrirkomulagi, þ.e. að skilja allt sem skiptir landsbyggðina höfuðmáli eftir í lausu lofti, muni ég aldrei samþykkja þetta frv.