Raforkulög

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 11:55:05 (3225)

2003-01-30 11:55:05# 128. lþ. 69.1 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[11:55]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og þingheimur veit er búið að taka dálítinn tíma að koma þessu máli til alvöruumræðu á hv. Alþingi. Það hefur verið vegna þess að ekki hefur náðst samstaða á milli stjórnarflokkanna nákvæmlega um útfærslu málsins. (Gripið fram í.) En vandamálið er það --- eða það er þá bara ekkert vandamál á ferðinni miðað við það að hv. þm. er núna tilbúinn að samþykkja frv. án þess að það verði til nokkur nefnd. Það væri það besta, að mínu mati. En það er hins vegar ekki það sem við erum að fjalla um núna, að gera það á þann hátt. Til þess að ná samstöðu var ég svo einstaklega lipur að samþykkja það að ákveðnir þættir færu í frekari vinnslu í nefnd (Gripið fram í.) sem er mjög breið (Gripið fram í.) og fjallar um frekari útfærslu á flutningskerfinu og uppbyggingu gjaldskrár. Að auki mun sú nefnd fjalla um hinar óarðbæru einingar, hvernig tekið skuli á þeim, vegna þess að ekki var algjör samstaða um hvernig það skuli gert, hvort það skyldi gert með fjárveitingu á fjárlögum sem ég hefði talið mjög gott, að taka það af fjárlögum hverju sinni. Hv. þm. er varaformaður fjárln. og vonandi samþykkir hann það núna í hvelli (Gripið fram í.) að við fáum 500 millj. á fjárlögum á ári hverju og leysum þá málið. Það væri náttúrlega mjög einfalt. En ég þyrfti þá að hafa það algjörlega tryggt að það yrði til frambúðar því að þetta er stórt atriði og ég þekki það mjög vel sem landsbyggðarþingmaður. (Gripið fram i.)