Raforkulög

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 11:57:19 (3226)

2003-01-30 11:57:19# 128. lþ. 69.1 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[11:57]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Við skulum fara aðeins yfir þetta. Ef menn eru sammála um að engan árangur sé að hafa af samkeppni í flutningi og dreifingu raforku getum við mjög vel gengið frá þessu frv., og gengið frá því þannig að flutningurinn og dreifingin sé á einni hendi, einu fyrirtæki sem hið opinbera á. Jöfnunin eigi sér stað í heildsölunni. Allt tal um einhverjar óarðbærar einingar er bara til að búa til vandræði. Hvaða einingar eru arðbærar og ekki arðbærar? Við eigum að jafna raforkunni í heildsölunni á einu bretti. (Iðnrh.: Hver er meiningin?) Það er fráleitt að koma með peninga í fjárlögum til þess að segja mönnum í þessum dal eða á hinum staðnum: Þetta fékkst þú út á þína línu og þessi sveitabær kostaði þetta og þetta. Það er fráleit skipan og kæmi aldrei til mála (Gripið fram í.) af minni hálfu að vera samþykkur því. Við eigum að jafna þessu í heildsölunni (Gripið fram í.) og það er alveg óþarfi af hæstv. iðnrh. að vera með frammíköll við andsvar mitt. Ég skal koma hingað aftur á eftir og tala, við getum haldið áfram í dag með umræðuna. Það er alveg ljóst að hagsmunir landsbyggðarinnar liggja í því að við tryggjum raforkuflutning og öryggi í raforkuflutningi og við tryggjum það með einu slíku fyrirtæki þar sem engri samkeppni verður komið við, enda er engri samkeppni hægt að koma við. Þannig tryggjum við jafnan aðgang að orku og jafnan kostnað af raforku um landið allt. Það er þetta sem skiptir máli, þetta á að vera inni í frv. og ef hæstv. iðnrh. er því samþykk er þetta mjög auðvelt, þá setjum við þetta bara inn í frv.