Raforkulög

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 12:01:43 (3228)

2003-01-30 12:01:43# 128. lþ. 69.1 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[12:01]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst þetta andsvar alveg óþarfi. Mér finnst að mínum kæru félögum og hv. þingmönnum öðrum eigi að leyfast að komast persónulega að einhverri niðurstöðu eða skoðun þegar þeim hentar og ekki eigi að atyrða menn fyrir það. Ég minnist þess ekki að menn hafi verið skammaðir, ef þeir hafa komist að einhverri niðurstöðu, klukkan hvað þeir gerðu það eða hvort þeir gerðu það. Ekki að segja: Af hverju komst þú ekki á þessa skoðun í gær eða í hinni vikunni? Ég held að ef hv. þm. er ánægður með sjónarmið mín ætti hann bara að gleðjast yfir því en ekki harma það að ég hafi ekki komið fram með þau í fyrra eða hittiðfyrra. Ég fór fyrst að ræða um þessi mál fyrir tæpu ári, ég hefði kannski átt að ræða þau fyrir tveim árum. En mér finnst að hv. þm. eigi ekki að harma það sérstaklega. Það er mitt mál hvenær ég sný mér að einhverjum hlutum og fer að skoða þá. Niðurstaða mín var þessi og hún hlýtur að skipta öllu máli fyrir hv. þm. svo og aðra félaga mína þannig að ég vona að við séum í sátt.