Raforkulög

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 12:23:50 (3232)

2003-01-30 12:23:50# 128. lþ. 69.1 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[12:23]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Annaðhvort er hv. þm. í einhverjum pólitískum leik eða hann hefur ekki lesið mikið í frv. sem hér er til umfjöllunar. Hann virðist ekki gera sér grein fyrir því að það er ákvörðun ríkisstjórnarinnar, og það hafa verið lögð fram frv. þess efnis, að tekið verður á þeim kostnaði sem er í raforkukerfinu, bæði í dreifi- og flutningskerfinu, og hægt er að tala um sem óarðbæran rekstur. Frv. sem hér var til umfjöllunar á síðasta ári gekk út á það að leggja sérstakt gjald á hverja kílóvattstund til þess að jafna þennan kostnað út. Ég skipaði nefnd sem kom fram með tillögur um það hvernig þetta skyldi gert og það voru tveir kostir, annars vegar að þetta væri fjárhæð á fjárlögum hverju sinni og hins vegar að sérstakt gjald yrði lagt á. Niðurstaðan var sú að leggja til að það yrði sérstakt gjald. Vegna þess að í frv. er gert ráð fyrir nefndarstarfi sem tekur á ákveðnum þáttum töldum við rétt að sú nefnd fjallaði líka um þetta mál. En það er pólitísk ákvörðun að það verður tekið á þessum vanda. Og það er ekki bara að það sé pólitísk ákvörðun, það er nauðsynlegt vegna frelsisins sem við erum að fara inn í í raforkukerfinu að ekki verði lagðar kvaðir á eitt fyrirtæki frekar en annað. Hv. þm. talar um sína leið til að jafna raforkukostnað --- þetta er ekkert hans leið, þetta er leið ríkisstjórnarinnar og það er ánægjulegt að heyra að hann styður hana.

Það var ýmislegt fleira sem kom fram í máli hv. þingmanns. Hann segir að Norðmenn kveinki sér undan hækkandi orkuverði og það hefur verið alveg gríðarlega hátt í vetur sem kemur til af miklum kuldum í Noregi. Ég kann ekki að nefna þær tölur en það er alveg gígantískt sem fólk hefur þurft að borga þar fyrir raforkuna í vetur.