Raforkulög

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 12:48:39 (3237)

2003-01-30 12:48:39# 128. lþ. 69.1 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[12:48]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hv. þm. Árna R. Árnason út í þann kafla í ræðu hans sem fjallaði um Hitaveitu Suðurnesja, þar sem fyrirtækið selur Landsvirkjun á mjög lágu verði orkuna sem þar er framleidd að verulegum hluta, en kaupir síðan orku á mjög háu verði til að sinna neytendum sínum. Á sama hátt má segja með Rarik að það kaupir rafmagn á mjög háu verði frá Landsvirkjun til að selja neytendum sínum.

Hv. þm. nefndi í ræðu sinni að fyrirtækin væru meira og minna neydd til þessara viðskipta og ég held að það sama gildi um Rarik og vil spyrja hv. þm. hvort hann sé ekki sammála mér í því að pólitískar hindranir hafi verið fyrir því að Rarik færi í aukna framleiðslu sem í mínum huga er augljóst af hverju. Og mig langar til að heyra betur í þingmanninum hvað hann álíti að valdi því að pólitískt, sennilega, séu menn settir í þá stöðu að þurfa að gera það sem e.t.v. ekki er hagkvæmast, eins og Hitaveita Suðurnesja, því það er augljóst að fyrir neytendur á Suðurnesjum væri betra að fá þessa orku á lágu verði beint inn á línu án þeirra hliðarslaufa sem teknar eru og raunar á sama hátt með Rarik. Þetta er grundvallarspurning um það hvernig við byggjum upp kerfi okkar í landinu og er náttúrlega liður í stóriðjustefnu okkar. Landsvirkjun er stofnuð til þess að fóðra stóriðju með alls konar hliðarsamningum, m.a. við Hitaveitu Suðurnesja og ekki síður með stöðu Rariks.