Raforkulög

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 12:50:45 (3238)

2003-01-30 12:50:45# 128. lþ. 69.1 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv., ÁRÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[12:50]

Árni R. Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég vona að hv. þm. virði það við mig að ég svari síðasta atriðinu fyrst.

Samningar milli Landsvirkjunar og annarra framleiðenda, ég hygg að þeir séu tveir, Hitaveita Suðurnesja og Orkuveita Reykjavíkur, sem selja Landsvirkjun orku sem hún endurselur til stóriðju, eru tiltölulega nýlegir. Ég get raunar ekki upplýst neitt um slíka samninga Landsvirkjunar frá fyrri tímum, en þessir samningar eru nýlegir. Ég hygg að þeir byggist í raun á því, þ.e. aðalforsendan er sú að Landsvirkjun hefur á síðustu árum ekki haft raforku í framboði sem hefur nægt öllum stóriðjukaupendum sem hafa verið að auka við sig. Bæði í Straumsvík og á Grundartanga hafa stóriðjurnar, sem eru nú ekki margar, verið að auka framleiðslu sína án þess að ráðast í stórkostlegar fjárfestingar. Hins vegar þegar þær hafa ætlað sér að ráðast í stórar fjárfestingar og stækka mjög verulega, þá hafa alltaf komið til sérstakir samningar á milli þeirra og Landsvirkjunar. Núna er alveg ljóst, og hefur verið það nokkuð lengi, að þegar kemur að stækkun Norðuráls, sem það fyrirtæki ætlar sér staðfastlega að ráðast í, þá verða seljendur fleiri en Landsvirkjun. Og fyrirkomulagið verður þannig að aðrir orkuframleiðendur selja Landsvirkjun sem selur síðan fyrirtækinu í einu lagi. Þetta getur verið einhvers konar hagkvæmnisatriði og ég heyri það frá þeim samningum að fyrirtæki sem kaupir orkuna vill gjarnan skipta við einn aðila. Það er eðlilegt sjónarmið af þeirra hálfu.

Varðandi pólitískar hindranir fyrir Rarik eða einhverja aðra, þá verður bara að viðurkenna, og ég hef raunar sagt það áður hér í þessum ræðustól, að raforkukerfi okkar Íslendinga hefur verið ágætt sovét. Hér hefur enginn ráðið nema ráðherra. Það verður bara að viðurkennast að það hefur lengi verið uppi það álit að ráðherra geri ekki mikið sem Landsvirkjun er ekki sammála. Það er ekkert leyndarmál. Það er ljótt að þurfa að segja það, en við höfum þurft að nefna þetta fyrr.