Raforkulög

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 12:52:58 (3239)

2003-01-30 12:52:58# 128. lþ. 69.1 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[12:52]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því að þetta eru flókin mál, en hv. þm. svaraði ekki þeirri spurningu af hverju væri verið að fara þessa slaufuleið. En það er náttúrlega augljóst að hæstv. iðnrh. á hverjum tíma hefur verið að gæta hagsmuna Landsvirkjunar vegna þess að Landsvirkjun hefur þurft á þessum mörkuðum að halda á því verði sem hún selur orkuna inn á þá markaði. Þannig er myllan sett upp. Það er svo augljóst. Alveg fram að þessu hefði náttúrlega Landsvirkjun lent í verulegum vandræðum ef t.d. Rarik á síðustu tveimur áratugum hefði verið í fullum gangi með að virkja á ódýran hátt fyrir sig og keyra inn á sína línu. Þannig vil ég meina að neytendur á Rarik-svæðinu og þess vegna á svæði Hitaveitu Suðurnesja séu að borga niður stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar og gjalda með háum töxtum sínum fyrir lága taxta fyrir stóriðjuna.

Þessum hlutum verðum við náttúrlega að breyta og ég hyggst vita og spyr hv. þm. Árna R. Árnason hvort hann sé ekki sammála því að auðvitað eiga notendur á orkuveitusvæði Hitaveitu Suðurnesja að njóta þess að vera nálægt auðlindunum og orkusvæðunum og njóta þess að þar er auðvelt að búa til orku. En fyrirkomulagið, eins og hv. þm. benti réttilega á, hefur verið hindrað af iðnaðarráðherrum í gegnum árin vegna þeirrar uppsetningar sem við höfum í landinu hvað varðar afhendingu á orku til stóriðju. Og eftir því sem ég hef skoðað málin þá er ekkert vafamál að við neytendur erum óbeint, sérstaklega á orkusvæðum Rariks og Hitaveitu Suðurnesja, að greiða stórlega niður þessa starfsemi hvernig sem á það er litið.