Raforkulög

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 15:05:27 (3250)

2003-01-30 15:05:27# 128. lþ. 69.1 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[15:05]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hæstv. ráðherra hafi í rauninni svarað sér sjálf um að það sem kemur fram í frv. rekur sig hvað á annars horn, því það kom einmitt svo skýrt fram.

En varðandi það að veigamestu þáttum raforkumálanna skuli vísa í nefnd, þá erum við að leggja hér fram heildstætt frv. og það hafa verið ein rökin hjá hæstv. ráðherra fyrir því að leggja þetta mál fram, að verið væri að leggja fram heildstætt frv., ekki bara að uppfylla kröfur Evrópusambandsins heldur líka að leggja fram heildstætt frv. um raforkumál. Hvers vegna er þá ekki tekið á þeim þáttum sem snerta neytendur mest og það látið koma fram í frv. að jafnt verð skuli vera á rafmagni um allt land, gagnvart neytendum um allt land? Og ef það er eins og hæstv. ráðherra sagði að þegar væri ákveðið í ríkisstjórninni að taka á þessu máli, hvers vegna er það þá ekki sett inn í frv.? Hvaða þýðingu hefur það að skipa nefnd þó svo að Vinstri grænir eigi aðild að þeirri nefnd, ef ríkisstjórnin er búin að ákveða hvernig þetta á að vera, eins og hæstv. ráðherra sagði?

Niðurstaðan er því sú, herra forseti, að veigamestu þættir í raforkumálum á Íslandi er verð til neytenda og jöfnuður á verði til neytenda og gæði á þeirri þjónustu. Frumvarp sem lagt er fram um raforkumál og inniheldur ekki slíka þætti tekur ekki á þeim málum sem neytendur vildu í rauninni fá að heyra, þ.e. verðþættinum. Ef það er ákveðið í ríkisstjórninni að taka skuli á þessu, hví er það þá ekki sett inn í frv.? Mér er spurn.