Raforkulög

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 15:58:47 (3255)

2003-01-30 15:58:47# 128. lþ. 69.1 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv., iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[15:58]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu. Ég tel að hún hafi upplýst ýmislegt, a.m.k. vona ég það.

Ég held því fram að þetta mál sé ágætlega vel unnið. Það er búið að vera lengi í vinnslu, það er ekkert launungarmál, búið að margfara yfir það af hálfu ráðuneytisins og mikið samráð hefur verið haft við hagsmunaaðila. Málið hefur komið til umfjöllunar á Alþingi, fyrst náttúrlega í formi þáltill. og síðan sem frv., en raunar er það frv. sem við nú ræðum fyrst núna að koma til umræðu.

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sagði að það þyrfti að vinna málið miklu betur. Það er best að fullyrða aldrei að hlutir séu fullkomnir og til þess er nú nefndarstarfið, að fjalla um mál í nefndum. Ég vonast til að sú vinna gangi vel. Það er mikið verk að fara yfir þetta mál, það er ekki nokkur spurning, en ég vonast til þess að starfið gangi það vel að við getum gert þetta mál að lögum fyrir vorið. Ég tel reyndar að það sé mjög mikilvægt vegna þess að við erum komin fram yfir tíma og erum farin að fá aðfinnslur frá Eftirlitsstofnun EFTA.

Það kom fram áðan að í þessu frv. væri bæði um samkeppni að ræða og ekki samkeppni. Það er alveg rétt. Það eru vissir þættir sem eru sérleyfisbundnir, flutningur og dreifing, en hins vegar er samkeppni í vinnslu og sölu.

[16:00]

Mikil áhersla er lögð á það af hálfu þingmanna að tekið sé á því máli sem varðar dreifðustu byggðirnar og ég er innilega sammála því og hef lagt mikla áherslu á það alveg frá því að ég kom í ráðuneytið og kom að þessu máli að sá þáttur málsins yrði ekki vanræktur. Ég held því að það séu óþarfa áhyggjur sem hv. þingmenn hafa sýnt hér í umræðunni þess efnis að það sé einhver spurning um að tekið verði á þessu máli, og eins og Guðjón A. Kristjánsson orðaði það, að fá rafmagn á sambærilegu verði, að það sé mikið byggðamál og það er alveg lykilatriði.

En hvert er þá óhagræðið í dag? var spurt. Það er ekki gegnsæi í kerfinu, erfitt er að meta kerfið eins og það er í dag og eins og ég hef sagt, ekki er hægt að segja að neytandinn viti mikið um það hvernig raforkuverð verður til. Ég tel hins vegar að með þessum breytingum muni það allt saman liggja miklu betur fyrir og það séu hagsmunir neytenda að þekkja uppbyggingu gjaldskrár og þar fram eftir götunum. Þessi orkufyrirtæki hafa í rauninni verið dálítið stikkfrí gagnvart því að gefa upplýsingar um uppbyggingu verðsins. Miklar skyldur eru lagðar á sérleyfisreksturinn hvað varðar upplýsingar og upplýsingaskyldu. Orkustofnun hefur þar mjög miklu hlutverki að gegna og það er þess vegna mikilvægt verkefni sem sú stofnun fær með þessu frv., ef að lögum verður, og reyndar munum við líka fjalla um sérstakt frv. sem lýtur að starfsemi Orkustofnunar.

En mér finnst það vera kannski til staðfestingar á því að þetta fyrirkomulag hafi gengið bærilega hjá öðrum Evrópuþjóðum að verið er að undirbúa nýja tilskipun sem gengur lengra í frjálsræðisátt en sú sem hefur verið í gildi og það hlýtur að vera til merkis um það að Evrópuþjóðir telji að þetta fyrirkomulag hafi reynst vel, það er alla vega ekki verið að stíga skrefið til baka.

Ég held að það séu óþarfa áhyggjur að velta því upp að það sé einhver spurning um að Íslendingar fái rafmagn. Við erum með gott kerfi í raun, uppbyggingin er góð og afhendingaröryggi er með besta móti. Að mínu mati er ekki hægt að halda því fram að það fyrirkomulag sem við erum núna að taka upp setji í hættu þessi mikilvægu markmið sem við Íslendingar höfum alltaf haft síðan við yfir höfuð rafvæddum þjóðina.

Það er kannski ekki ástæða til að fjölyrða um þetta frekar. Við eigum eftir að fjalla um þetta mál aftur seinna í vetur í sambandi við Landsvirkjun sem hefur verið hér nokkuð til umfjöllunar og það að því fyrirtæki gæti hugsanlega verið breytt í hlutafélag, ég ætla ekkert að útiloka það en a.m.k. er ekki búið að taka neina ákvörðun um það. Eigendanefndin hefur tíma út þetta ár og á næsta ári er áformað að hún ljúki störfum og hafi þá áttað sig á framtíðarhlutverki og framtíðarrekstrarformi þessa fyrirtækis. En ég tel að allar líkur séu á því, eða ég vil trúa því, að þó svo að fyrirtækið væri hlutafélag í dag hefði engu að síður verið ráðist í framkvæmdir við Kárahnjúka. Það má segja í tengslum við það að breytingin á rekstrarformi bankanna, sem nú hefur verið breytt í hlutafélög og þeir reyndar seldir, varð ekki til þess að skaða lánshæfið.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta. Ég vil þakka fyrir umræðuna, tel að hún hafi verið upplýsandi og þakka þeim sem tóku þátt í henni.