Breyting á ýmsum lögum á orkusviði

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 16:10:38 (3260)

2003-01-30 16:10:38# 128. lþ. 69.2 fundur 463. mál: #A breyting á ýmsum lögum á orkusviði# frv., iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[16:10]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á ýmsum lögum á orkusviði, sem er 463. mál á þskj. 701.

Í frv. er, eins og heiti þess ber með sér, lagt til að gerðar verði breytingar á ýmsum lögum á orkusviði. Ástæður breytinganna má rekja til ákvæða frv. til raforkulaga sem lagt er fram samhliða þessu frv.

Nauðsynlegt þykir að gera breytingar á vatnalögum, nr. 15/1923, orkulögum, nr. 58/1967, lögum um raforkuver, nr. 60/1981, lögum um Landsvirkjun, nr. 42/1983, lögum nr. 10/2001, um stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja, lögum nr. 40/2001, um stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða, og lögum nr. 139/2001, um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur.

Viðamestu breytingarnar felast í breytingum á orkulögum annars vegar og lögum um Landsvirkjun hins vegar. Í frumvarpi til raforkulaga er m.a. lagt til að skapaðar verði forsendur til samkeppni í vinnslu og sölu raforku og orkufyrirtækjum gert skylt að halda aðgreindum reikningum fyrir samkeppnisstarfsemi annars vegar og einokunarstarfsemi hins vegar. Er því gert ráð fyrir að öllum skyldum verði aflétt af Landsvirkjun og að forréttindi fyrirtækisins falli jafnframt niður. Með sama hætti eru lagðar til breytingar á hlutverki Rafmagnsveitna ríkisins svo það samræmist áðurgreindum breytingum á skipan raforkumála og lögum um Hitaveitu Suðurnesja hf. og Orkubú Vestfjarða hf.

Í frv. þessu eru ekki lagðar til breytingar á I. kafla orkulaga, um Orkustofnun. Frumvarp til laga um Orkustofnun og frumvarp til laga um Íslenskar orkurannsóknir hafa á hinn bóginn verið lögð fram, m.a. í ljósi þeirra breytinga sem lagðar eru til í frv. til raforkulaga.

Hæstv. forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjalla um einstakar greinar frv. en legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. iðnn.