Einkahlutafélög

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 16:45:00 (3267)

2003-01-30 16:45:00# 128. lþ. 69.6 fundur 521. mál: #A einkahlutafélög# (ársreikningar, slit félaga) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[16:45]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég sé nú ekki annað en að frv. sem við ræðum sé til bóta en taldi fulla ástæðu til þess undir þessum dagskrárlið að leita eftir skoðun hæstv. viðskrh. á þeirri fjölgun sem orðið hefur á einkahlutafélögum frá því í fyrra. Skráð einkahlutafélög nú eru 3.120 og hefur nýskráningum fjölgað á árinu 2001 um 67%.

Í því sambandi vil ég rifja upp að fyrir rúmu ári síðan eða þegar við vorum að fjalla um skattalagabreytingar hæstv. fjmrh., þar sem fram kom veruleg rýmkun á því að stofna einkahlutafélög, þá höfðum við mörg í þessum sal áhyggjur af því að þetta mundi leiða til mikillar fjölgunar á einkahlutafélögunum þar sem fyrst og fremst væri verið að leita eftir skattahagræði, þ.e. að þarna sköpuðust möguleikar hjá þeim sem væru með einakrekstur að flytja starfsemina yfir í einkahlutafélög og opna þar með möguleika á því að færa hluta af launum yfir í arð og hagnað í þeim tilgangi að greiða lægri skatt. Skattstjórar í landinu höfðu verulegar áhyggjur af þessu og bentu á það í umsögnum sínum um málið að þetta gæti leitt til þeirrar niðurstöðu að fjölgun yrði veruleg til þess að ná fram skattahagræði.

Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort fjallað hafi verið um það í ráðuneyti hennar eða leitað skýringa á þessari fjölgun einkahlutafélaga sem orðið hefur og hvort hún telji ástæðu í ljósi þessarar fjölgunar að beita sér fyrir einhverjum takmörkunum á stofnun einkahlutafélaga til þess að koma í veg fyrir að verið sé að nýta þetta rekstrarform í þeim tilgangi að nýta skattalegt hagræði með óeðlilegum hætti.