Einkahlutafélög

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 16:47:16 (3268)

2003-01-30 16:47:16# 128. lþ. 69.6 fundur 521. mál: #A einkahlutafélög# (ársreikningar, slit félaga) frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[16:47]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í lok ræðu sinnar sagði hv. þm.: ,,með óeðlilegum hætti``. Ég er ekki viss um að hægt sé að tala um að það sé með óeðlilegum hætti þó að einstaklingar í rekstri taki ákvörðun um að stofna einkahlutafélag utan um rekstur sinn ef það er allt gert samkvæmt lögum. Almennt séð er ég mjög jákvæð gagnvart atvinnulífinu og öllum nýjum fyrirtækjum og sprotafyrirtækjum og tel að það sé skynsamlegra að nálgast þetta mál á jákvæðan hátt. Það að félögum hefur fjölgað þetta mikið þarf ekki endilega að vera neikvætt. Hugsanlega gæti það líka verið jákvætt þannig að þegar stofnað hafi verið til einkahlutafélags þá eigi það kannski meiri möguleika á að eflast og hafa þá möguleika á að fjölga störfum og þar fram eftir götunum.

Ég vil því ekki líta á þetta sem vandamál nema mér verði betur komið í skilning um að svo sé.