Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 17:07:41 (3276)

2003-01-30 17:07:41# 128. lþ. 69.16 fundur 61. mál: #A sveitarstjórnarlög# (lágmarksstærð sveitarfélags) frv., Flm. JÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[17:07]

Flm. (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, Svanfríður Jónasdóttir, Sigríður Jóhannesdóttir, Kristján L. Möller og Þórunn Sveinbjarnardóttir.

Frumvarp þetta var lagt fram á 126. og 127. löggjafarþingi en varð ekki útrætt. Er frumvarpið því flutt að nýju efnislega óbreytt.

Efling sveitarfélaga er afar mikilvægur þáttur í því að tryggja íbúum landsins góð lífsskilyrði. Mikið var fjallað um hlutverk sveitarfélaganna og möguleika þeirra á að sinna því fyrir tæpum áratug. Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi félagsmálaráðherra, skipaði ,,sveitarfélaganefnd`` í febrúar 1992. Nefndin skilaði lokaskýrslu í mars 1993. Í kjölfar aðgerða sem ákveðnar voru af stjórnvöldum í framhaldi af starfi nefndarinnar urðu verulegar breytingar á stærð og fjölda sveitarfélaganna. Sveitarfélög sameinuðust víða og sums staðar urðu þau afar víðáttumikil. Fyrir tíu árum voru sveitarfélögin 204 en þau eru nú 105. Þrátt fyrir að mikið hafi áunnist sitja þó víða eftir örsmá sveitarfélög sem geta alls ekki sinnt því hlutverki sem þeim er ætlað samkvæmt lögum.

Pólitískur vilji til þess að færa til sveitarfélaganna fleiri verkefni frá hinu opinbera virðist vera almennur nú. Ástæða er þó til að ætla að sá vilji byggist á þeirri forsendu að flest, og helst öll, sveitarfélög geti veitt svipaða þjónustu og tekið að sér sambærileg verkefni. Eigi að hafa þetta sjónarmið mun þróun í þá átt að flytja verkefni til sveitarfélaganna frá hinu opinbera stöðvast nema þau smáu sameinist og myndi þannig nægilega öflug samfélög til að standa jafnfætis öðrum. Enginn vafi er á því að efling sveitarfélaganna, skilgreining á þeim búsetuskilyrðum sem þau verða að geta boðið og flutningur verkefna til þeirra er forsenda þess að byggð geti haldist og þróast víða um land. Það er því eitt brýnasta verkefni byggðamálanna að styrkja sveitarfélög á landsbyggðinni.

Ástæður þess að sameining sveitarfélaga hefur gengið hægt sums staðar eru margvíslegar. Gamlar hefðir og áhrif ráðamanna í héraði valda þessu að hluta til. Mikil breyting hefur þó orðið á afstöðu manna til sameiningarmála á þeim árum sem liðin eru frá því að lokaskýrsla sveitarfélaganefndarinnar kom út, og almennt er afstaða til sameiningar jákvæðari nú en áður. Þó er ekki líklegt að árangur náist í eflingu sveitarfélaga á ýmsum svæðum. Til eru dæmi um að fámenn sveitarfélög á litlum landsvæðum, sem eru óumdeilanlega eitt atvinnusvæði, hafi ítrekað hafnað sameiningu við nágranna sína vegna mismunandi aðstöðu til tekjuöflunar. Þannig hefur misvægi í tekjuöflunarmöguleikum sem ríkið hefur tryggt sveitarfélögunum komið í veg fyrir eðlilega sameiningu þeirra. Afar brýnt er að hraða almennri þróun í átt til öflugri sveitarfélaga sem geta veitt sambærilega þjónustu og tekið við nýjum og auknum verkefnum. Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að lágmarksstærð sveitarfélaga verði 1.000 manns. Flutningsmenn telja þó að í raun sé 1.000 manna samfélag lítið og vanmegnugt til þess að tryggja íbúum þau búsetuskilyrði sem nú eru nauðsynleg til að treysta byggðina til framtíðar. Samþykkt frumvarpsins yrði þó mikilvægt skref til að flýta þróuninni til öflugri sveitarfélaga. Ástæða er til að hafa í huga að í sveitarfélögum sem hafa orðið til við sameiningu undanfarin ár er víða góður jarðvegur fyrir umræðu um að mynda enn stærri og öflugri sveitarfélög. Þannig virðist sameining smæstu sveitarfélaganna við önnur geta rutt úr vegi fyrirstöðum sem nú tefja þróunina í átt til öflugri sveitarfélaga.

Miklar umræður hafa farið fram um þessi mál á undanförnum árum og ýmsar hugmyndir komið fram um hvernig standa skuli að eflingu sveitarfélaganna. Þótt stjórnvöld hafi sýnt viðleitni til að flytja verkefni til sveitarfélaganna frá hinu opinbera virðast þau þó ekki hafa dug til að marka stefnu sem leiði til öflugri sveitarfélaga sem geri þeim almennt fært að taka að sér slík verkefni. Náist ekki að sameina fámennu sveitarfélögin í nægilega stórar einingar stöðvast sú þróun sem verið hefur í þá átt að flytja verkefni frá hinu opinbera til sveitarfélaganna. Þetta frumvarp er flutt til að freista þess að koma í veg fyrir að þessi mál staðni í því fari sem þau eru í nú.

Ég tel að það hafi orðið, hæstv. forseti, veruleg breyting á allra síðustu árum og nú hefur þrýstingur frá samtökum sveitarstjórnanna í landinu á þessi mál aukist verulega. Ég tel þess vegna mjög brýnt að menn taki á því sem frv. fjallar um, þ.e. ryðji úr vegi hindrunum sem eru vegna þeirra sveitarfélaga sem eru lítil en hafa af einhverjum ástæðum, stundum mjög sértækum, þ.e. tekjumöguleikum sem þau hafa fram yfir önnur sveitarfélög, komið í veg fyrir að þróun til eðlilegra sveitarfélaga, miðað við nútímakröfur sem gerðar eru til þjónustu frá hinu opinbera, hafi náð fram að ganga.

Ég vonast til þess að þetta frv. fái nú skjóta meðferð í nefnd. Ég tel að það sé fullkomlega í samræmi við þá stefnu sem er nú aðallega uppi og stór meiri hluti er á bak við hjá sveitarfélögum í landinu og samtökum sveitarstjórnarmanna.

Ég held að byggðaparturinn í þessu máli geti líka skipt gífurlega miklu máli vegna þess að öflug sveitarfélög eru forsenda þess að það sé hægt að bjóða upp á framhaldsnám í öllum sveitarfélögum landsins. Það á auðvitað að vera stefna stjórnvalda að sjá til þess að boðið sé upp á slíka þjónustu, svo eitt dæmi sé nefnt um það sem ætti að vera grunnskilyrði fyrir því að sveitarfélög séu öflug og sterk.