Umhverfismengun af völdum einnota umbúða

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 17:15:35 (3277)

2003-01-30 17:15:35# 128. lþ. 69.12 fundur 543. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða# (hækkun umsýsluþóknunar) frv., umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[17:15]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 52/1989, um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, með síðari breytingum.

Í frv. þessu er lagt til að fjárhæð umsýsluþóknunar sem lögð er á einnota umbúðir fyrir drykkjarvörur verði hækkuð í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs frá árinu 2000 þegar fjárhæð hennar var lögfest, eða um 13%. Umsýsluþóknun er lögð á einnota drykkjarvöruumbúðir til að mæta kostnaði Endurvinnslunnar hf. af söfnun, endurvinnslu eða eyðingu slíkra umbúða og annarri tengdri stjórnsýslu. Hækkunin nemur frá 0,04 kr. til 0,4 kr. á hverja umbúðaeiningu og er því ekki líkleg til að valda umtalsverðri hækkun á verði drykkjarvara.

Endurvinnslan hf. hefur óskað eftir fyrrnefndri hækkun vegna kostnaðarhækkana sem orðið hafa frá og með árinu 2000, sérstaklega hvað varðar laun verkafólks og flutninga innan lands. Kostnaður við móttöku umbúða hefur einnig aukist síðustu ár, aðallega vegna bættrar þjónustu við neytendur með samningum við Sorpu um móttöku umbúða á endurvinnslustöðvum Sorpu á höfuðborgarsvæðinu. Söluverð í erlendri mynt fyrir áldósir og plastflöskur til endurvinnslu hefur lækkað undanfarin missiri og einnig hefur gengisþróun verið óhagstæð. Til að tryggja áframhaldandi rekstrargrundvöll fyrir Endurvinnsluna hf. er lögð til fyrrnefnd hækkun á umsýsluþóknun.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið hér efni frv. og ég legg til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhvn.