Verndun búsetu og menningarlandslags í Árneshreppi

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 17:48:05 (3282)

2003-01-30 17:48:05# 128. lþ. 69.15 fundur 55. mál: #A verndun búsetu og menningarlandslags í Árneshreppi# þál., Flm. EKG
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[17:48]

Flm. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þær ágætu viðtökur sem þessi tillaga hefur fengið. Það er rétt sem hv. 5. þm. Norðurl. v. sagði áðan, að það er margt sem hægt er að gera til að efla búsetu í Árneshreppi. Vitaskuld hafa menn verið reynt að hyggja að þessu máli undanfarin ár og það er út af fyrir sig rétt að það þarf ekkert að bíða eftir samþykkt þessarar tillögu. Ef menn skoða hins vegar málin kemur í ljós að menn hafa reynt að hyggja að ýmsu í þessum efnum og ég gæti út af fyrir sig farið nokkuð yfir það.

Hv. þm. gerði vegamálin að umtalsefni. Auðvitað er það svo að vegurinn norður í Árneshrepp er ekki utan við lög og rétt heldur er vegurinn skilgreindur með tilteknum hætti. Eins og flokkun Vegagerðarinnar gerir ráð fyrir hygg að hann sé skilgreindur sem tengivegur. Síðan var það ákvörðun Alþingis á sínum tíma að leggja aukið fjármagn til ferðamannaleiða. Ástæðan var einfaldlega sú að það þurfti sérstakt átak við tiltekna vegi í landinu og það var ákvörðun okkar þingmanna Vestfirðinga á sínum tíma að leggja fyrst og fremst áherslu á tvö svæði í þessu sambandi, annars vegar veginn út á Látrabjarg og hins vegar veginn norður í Árneshrepp. Það var ekki þannig að menn settu þennan veg skör lægra en aðra vegi í kjördæminu, öðru nær. Við höfum hins vegar staðið frammi fyrir því, það var sú sára reynsla sem ég skynjaði t.d. sem þingmaður til nokkurra ára þegar að þessu kom, að okkur gekk mjög illa. Við höfðum ekki færi á að fá fjármagn inn á þessa leið nema með sérstökum hætti.

Það er ekki þannig að í flokkun vega hjá Vegagerðinni séu sérstakar ferðamannaleiðir sem ekki þjóni öðrum tilgangi. Það er einfaldlega þannig að menn taka ákvörðun um að setja hluta af tilteknum fjárveitingum til þess sem menn hafa síðan kallað ferðamannaleiðir. Með þessu tókst okkur að fá viðbótarfjármagn til að bæta veginn norður í Árneshrepp.

Á síðasta ári var tekin sú ákvörðun að fara í veginn norðan til í Bjarnarfirðinum, sem Vegagerðin sjálf taldi að væri mest áríðandi. Þar var einfaldlega allt löðrandi í drullu og leir og ekki hægt að moka norður úr á vorin vegna þess. Þess vegna varð það niðurstaðan. Hugmyndin er auðvitað að halda áfram, væntanlega norður balana. Hins vegar er alveg ljóst að það er gríðarlega margt óunnið í þessum efnum og því miður býsna langt í land með að við venjulegar aðstæður verði hægt að hafa þarna heilsársumferð. Við þekkjum það, ég og hv. 5. þm. Norðurl. v., sem erum staðkunnugir á þessum slóðum. Það er því miður talsvert í land með það. En meiningin með ferðamannaleiðunum var einfaldlega sú að reyna að styrkja grundvöllinn að uppbyggingu vega á þessu svæði.

Í öðru lagi vil ég tala um það sem hv. þm. nefndi varðandi þessi 7.500 ærgildi. Ég er alveg sammála hv. þm. um það. Mér finnst ekki vansalaust hversu lengi það hefur dregist. Ég reyndi að fylgja því eftir með þeim leiðum sem við hv. þm. höfum, m.a. með því að taka málið upp á Alþingi. Ég veit ekki hvort hv. þm. man eftir því. Ég gerði það til að ýta á eftir þessu. Auðvitað er öllum ljóst að ef eitthvert eitt byggðarlag öðrum fremur ætti að falla undir þessa skilgreiningu þá er það auðvitað Árneshreppur á Ströndum. Það er bara augljóst mál. Það þarf varla að hafa um það mjög mörg orð.

Hv. þm. nefndi líka bréf til forsrh. Mér er auðvitað kunnugt um þetta bréf en ég get ekki svarað til um hvort því hafi verið svarað. Það er náttúrlega miður ef það hefur ekki verið gert. Ég hef hins vegar sjálfur reynt að vinna að þessu máli á grundvelli samþykktar ráðherranefndar Norðurlandaráðs og atbeina Landverndar. Ég hef verið áhugasamur um það vegna þess að ég tel að í þessu felist mikil tækifæri fyrir Árneshrepp á Ströndum. Eftir að hafa rætt þetta við nokkra ráðherra í ríkisstjórn Íslands sýndist mér mjög erfitt fyrir einn ráðherra að taka þetta mál upp umfram annan. Mín niðurstaða varð því sú að það væri langskynsamlegast og best fyrir framgang málsins að fá þingmenn Vestfirðinga í lið með mér, úr öllum þeim stjórnmálaflokkum sem þar að baki standa, til að flytja um þetta sérstakt þingmál þannig að Alþingi legði línurnar og þar með væri málið komið í eðlilegan, traustan farveg. Það var niðurstaða málsins. Þó að það sé rétt hjá hv. þm., að þetta hafi tekið langan tíma, lengri tíma en ég hefði viljað, þá var þetta mál þó flutt á síðasta ári, strax og þeim sem hér stendur var ljóst að málið varð að hafa annan atbeina en tiltekið ráðuneyti. Þess vegna hafði ég um það forustu meðal þingmanna Vestfirðinga að flyja þetta mál.

Því miður náðist ekki að ræða málið á síðasta þingi eða ljúka því. Þess vegna lagði ég það fram, eins og menn sjá hér á málsnúmerinu, strax í byrjun þingsins. Ég trúi ekki öðru, vegna þeirra góðu viðbragða sem hér komu fram, en að okkur takist að ljúka málinu.

Ég tek hins vegar undir það með hv. þm. að við þurfum að halda áfram að vinna að öðrum málum og þetta mál má ekki draga úr ábyrgð okkar við það. Ég veit að hv. þm. hlýtur að vera kunnugt um að ég hef reynt, eftir því sem ég hef haft færi á, að beita mér að hagsmunamálum Árneshreppsbúa þann tíma sem ég hef setið á þingi. Mér er samt sem áður ljóst að þó að við reynum það, skapar þingmál af þessu tagi mikla sérstöðu fyrir Árneshrepp. Það skapar ný tækifæri og nýja möguleika.

Eins og ég sagði áðan kemur mönnum kannski spánskt fyrir sjónir að þessu máli skuli hreyft með þessum hætti. En mín niðurstaða er sú, eftir að hafa skoðað þetta, er að það sé engin spurning um að við eigum að vinna að þessu máli. Það verður til að tryggja betur fjárveitingar á ýmsum sviðum til Árneshrepps og að fá viðurkennda þá sérstöðu sem ég tel að þetta sveitarfélag, þessi hreppur og þessi sveit hafi umfram aðra landshluta á Íslandi.