Afgreiðsla forsætisnefndar á beiðni um skýrslu

Mánudaginn 03. febrúar 2003, kl. 15:03:46 (3288)

2003-02-03 15:03:46# 128. lþ. 70.94 fundur 394#B afgreiðsla forsætisnefndar á beiðni um skýrslu#, Forseti HBl
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 128. lþ.

[15:03]

Forseti (Halldór Blöndal):

Svo háttar til að umræður og blaðaskrif hafa orðið um afgreiðslu forsn. á erindi frá hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni sem hann skrifaði forsn. 5. nóv. árið 2002 fyrir sína hönd og annarra þingmanna Samfylkingarinnar. Þar er þess farið á leit við forsn. Alþingis með vísan til síðari málsl. 1. mgr. 3. gr. laga um Ríkisendurskoðun, nr. 86/1997, að hún feli Ríkisendurskoðun að gefa Alþingi skýrslu um fjárhagslegt uppgjör Landssíma Íslands hf. við fyrrverandi forstjóra fyrirtækisins, Þórarin Viðar Þórarinsson, sem gert var í tengslum við starfslok hans hjá fyrirtækinu auk tengdra atriða.

,,Skýrsla um sams konar efni`` --- segir orðrétt í bréfinu --- ,,hefur þegar verið unnin af Ríkisendurskoðun fyrir Landssíma Íslands hf., að ósk fyrrv. stjórnarformanns fyrirtækisins, en stjórn Landssímans hefur hafnað því að gera skýrslu Ríkisendurskoðunar opinbera. Minnt skal á að fyrrv. stjórnarformaður Símans óskaði eftir áðurgreindri álitsgerð Ríkisendurskoðunar í framhaldi af því að fjárhagsleg samskipti Símans og fyrrv. forstjóra fyrirtækisins voru til opinberrar umræðu m.a. á Alþingi. Það er því eðlilegt að Alþingi verði greint frá niðurstöðum þeirrar athugunar sem fram fór á málinu í kjölfar þeirrar miklu umræðu sem varð um það á þinginu í febrúar og mars sl.

Með hliðsjón af því að öll gögn málsins liggja þegar fyrir hjá Ríkisendurskoðun er ljóst að hægt á að vera að gefa Alþingi skýrslu um fjárhagsleg málefni fyrrv. forstjóra Símans með skjótum hætti.

Virðingarfyllst,

fyrir hönd þingmanna Samfylkingarinnar.

Guðmundur Árni Stefánsson.``

Þetta mál var tekið fyrir í forsn. og fyrir liggur greinargerð frá skrifstofustjóra Alþingis um málið. Ætlunin var að taka þetta mál fyrir á fundi forsn. 10. des. sl. en þar sem hv. þm. Guðmundi Árni Stefánsson var þá erlendis þótti ekki rétt að gera það.

Í skýrslu skrifstofustjóra sem lögð var fyrir forsn. 21. jan. er málið rakið og síðan segir í niðurstöðu, með leyfi forseta, sem er góðfúslega veitt:

,,Mál þetta snýst um það hvort gert verði opinbert efni skýrslunnar sem Ríkisendurskoðun vann fyrir stjórn Landssíma Íslands hf. á sínum tíma. Fyrir liggur að skýrslan er trúnaðarskýrsla unnin af ríkisendurskoðanda sem endurskoðanda Landssíma Íslands hf., sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 86/1997, um Ríkisendurskoðun, og ljóst er að ríkisendurskoðandi væri að bregðast trúnaðarskyldu sinni ef hann gerði uppskátt um efni skýrslunnar. Eins og málið er vaxið þykja því ekki efni til að ríkisendurskoðanda sé gert að skila umbeðinni skýrslu.``

Á næsta fundi forsn., 28. janúar sem var fullskipaður, tók ég þá ákvörðun að við þessu erindi yrði ekki orðið. Ég lagði fram svohljóðandi bókun vegna erindis Guðmundar Árna Stefánssonar:

,,Með bréfi dags. 26. mars 1997 fól forsætisráðuneytið Stefáni Má Stefánssyni prófessor við lagadeild Háskóla Íslands að gera lögfræðilega úttekt á aðgangi Alþingis að upplýsingum um hlutafélög í eigu ríkisins.

Skýrsla forsætisráðherra um aðgang að upplýsingum um hlutafélög í eigu ríkisins, sem hér er vitnað til, birtist á þskj. 25 á 122. löggjafarþingi 1997--1998. Í þeirri álitsgerð, sem Stefán Már Stefánsson prófessor tók saman, segir m.a.: ,,Stjórnir hlutafélaga sem eru að öllu leyti eða að meiri hluta til í eigu ríkisins eða hluthafafundur þeirra (eftir atvikum viðkomandi ráðherra ef ríkið er einn eigandi og ákveðið er í lögum að hann fari með eignaraðild ríkissjóðs) ákveða hvaða málefni það eru sem talist geta viðskiptaleyndarmál og eiga að fara leynt. Ákvörðun um þetta ber að taka með hagsmuni félagsins að leiðarljósi, sbr. 7. tölulið. Þetta gildir þó ekki um þær upplýsingar sem fram koma í ársreikningi viðkomandi hlutafélags, sbr. 5. tölulið.``

Í bréfi Guðmundar Árna Stefánssonar, dags. 5. nóvember sl., er farið fram á að Ríkisendurskoðun vinni skýrslu ,,um sams konar efni`` og þegar hefur verið unnin af Ríkisendurskoðun fyrir Landssíma Íslands hf., en stjórn Landssímans hefur hafnað því að skýrslan verði gerð opinber með hagsmuni fyrirtækisins fyrir augum. Með vísan til álitsgerðar Stefáns Más Stefánssonar prófessors tel ég ekki efni til að verða við beiðni alþingismannsins.``

Að gefnu tilefni er rétt að taka fram að forsn. hefur ekki borist beiðni um að taka til skoðunar starfslokasamning fyrrum forstjóra Landssímans hf. eins og ranglega var sagt á Bylgjunni 29. jan. sl. og í Ríkisútvarpinu og ríkissjónvarpinu sama dag. Í bréfi hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar mun vera vísað til skýrslu sem dagsett er 4. júlí 2002 og Ríkisendurskoðun vann fyrir stjórn Landssímans hf. í samráði við þáv. stjórnarformann Landssímans.