Afgreiðsla forsætisnefndar á beiðni um skýrslu

Mánudaginn 03. febrúar 2003, kl. 15:16:51 (3292)

2003-02-03 15:16:51# 128. lþ. 70.92 fundur 392#B afgreiðsla forsætisnefndar á beiðni um skýrslu# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 128. lþ.

[15:16]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Spurningin sem vaknar er auðvitað þessi: Hvað er það í þessum starfslokasamningi sem ekki þolir dagsins ljós? Hvað er það sem veldur því að hæstv. samgrh. vill ekki birta það og jafnframt að hæstv. forseti þingsins tekur þátt í því að fela það sem greinilega þolir ekki að koma fram í dagsljósið?

Herra forseti. Hæstv. forseti vísaði til þess áðan að prófessor við Háskóla Íslands hefði sent frá sér álitsgerð fyrr á árum þar sem leidd voru rök að því að ef um væri að ræða eitthvað í hlutafélögum í eigu ríkisins sem túlka mætti sem viðskiptaleyndarmál þá væri heimilt að gera það ekki uppskátt. En, herra forseti, hvernig er hægt að halda því fram að starfslokasamningur við forstjóra sem fór frá með þeim hætti sem þessi tiltekni forstjóri gerði sé einhvers konar viðskiptaleyndarmál?

Önnur spurning vaknar líka í huga mínum sem þingmanns, herra forseti. Ég vil spyrja hæstv. forseta hvort hann telji að hann sé hæfur til þess að úrskurða með þessum hætti þegar haft er í huga að það var hann sem réð þennan mann á sínum tíma sem samgrh. Er þetta við hæfi, herra forseti?