Afgreiðsla forsætisnefndar á beiðni um skýrslu

Mánudaginn 03. febrúar 2003, kl. 15:19:06 (3294)

2003-02-03 15:19:06# 128. lþ. 70.92 fundur 392#B afgreiðsla forsætisnefndar á beiðni um skýrslu# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 128. lþ.

[15:19]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það var afar sérstætt áðan að hlýða á upplestur hæstv. forseta þingsins þegar hann gekk í lið með ráðherrunum og framkvæmdarvaldinu í því verkefni að leggja stein í götu þingmanna við það að fá hér fram eðlilegar og réttmætar upplýsingar. Rökin halda auðvitað ekki. Hæstv. forseti vitnaði í skýrslu prófessors frá 1997 um aðgang þingmanna að upplýsingum um hlutafélög. En menn verða að skoða út frá því sem hæstv. forseti vitnaði í, það er að ráðherrann sjálfur tekur ákvörðun um það hvort hann metur það svo að upplýsingar sem verið er að kalla eftir séu viðskiptaleyndarmál eða ekki. Hæstv. ráðherra skuldar okkur hér inni skýringu á því hvaða rök séu á bak við það að geta kallað það viðskiptaleyndarmál sem hér er verið að kalla eftir. Það er verið að kalla eftir því að fá upplýsingar um starfslokasamninga og tengd kjör hjá þessum fyrrverandi forstjóra Símans. Hæstv. ráðherra verður að koma hér í ræðustól og rökstyðja það hvers vegna hann líti svo á að þetta sé viðskiptaleyndarmál.

Það er ekkert í lögum sem bannar hæstv. samgrh. að upplýsa um þessi kjör. Ekkert í lögum, ekkert í hlutafélagalögunum bannar það vegna þess að hér er um að ræða fyrirtæki í meirihlutaeign ríkisins. Það er ráðherrann sem tekur ákvörðun um það að hér sé um viðskiptaleyndarmál að ræða. Það er ekki boðlegt, herra forseti, að bjóða þinginu upp á slík rök.