Afgreiðsla forsætisnefndar á beiðni um skýrslu

Mánudaginn 03. febrúar 2003, kl. 15:23:24 (3296)

2003-02-03 15:23:24# 128. lþ. 70.92 fundur 392#B afgreiðsla forsætisnefndar á beiðni um skýrslu# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 128. lþ.

[15:23]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Það vekur alveg sérstaka athygli að hæstv. forseti skuli standa hér einn til varnar við þessar aðstæður. Ég hef hins vegar allan skilning á því. Stjórnarliðar reyna auðvitað ekki eðli máls samkvæmt að verja þennan gjörning, enda er engin vörn til í málinu.

Herra forseti. Mér heyrist að einhver misskilningur sé hér á ferð ef hæstv. forseti skilur ekki það sem á blaði stendur og í hverju beiðni þingmanna Samfylkingarinnar er fólgin. Það segir orðrétt að við viljum, með leyfi forseta:

,,... fara þess á leit við forsætisnefnd Alþingis að hún feli Ríkisendurskoðun að gefa Alþingi skýrslu um fjárhagsleg uppgjör Landssíma Íslands hf. við fyrrv. forstjóra fyrirtækisins, Þórarin Viðar Þórarinsson, sem gert var í tengslum við starfslok hans hjá fyrirtækinu, auk tengdra atriða.``

Getur þetta skýrara verið? Það er verið að ræða um starfslokasamninginn, og tré og runnar mega fylgja.

Herra forseti. Þetta er dapur dagur í sögu þingsins og því miður verður að segja það eins og það er að hæstv. forseti Alþingis hefur ekki stækkað af þessu máli, þvert á móti.