Þjóðaratkvæðagreiðsla um Kárahnjúkavirkjun

Mánudaginn 03. febrúar 2003, kl. 15:30:13 (3301)

2003-02-03 15:30:13# 128. lþ. 70.97 fundur 408#B þjóðaratkvæðagreiðsla um Kárahnjúkavirkjun# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 128. lþ.

[15:30]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla að víkja að öðru máli, vekja athygli hæstv. forseta á því að á dagskrá þingsins í dag er þingmál frá þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um að fram fari atkvæðagreiðsla, almenn atkvæðagreiðsla, þjóðaratkvæðagreiðsla, um hvort ráðist skuli í Kárahnjúkavirkjun eða ekki. Við teljum að hér sé um að ræða mál sem er svo örlagaríkt og er svo umdeilt, að það hljóti að vera eðlileg lýðræðisleg krafa að þjóðin taki um þetta mál ákvörðun beint og milliliðalaust.

Í síðustu viku var afgreitt til nefndar frv. ríkisstjórnarinnar um heimild til að reisa álver í Reyðarfirði og teljum við mjög mikilvægt að þessi tvö þingmál fylgist að. Til að svo megi verða munum við fallast á að málinu verði vísað til nefndar, þá væntanlega til iðnn. og annarra hlutaðeigandi nefnda, án þess að umræða fari fram.