Hækkun á leyfilegum heildarafla fiskveiðiárið 2002/2003

Mánudaginn 03. febrúar 2003, kl. 15:52:52 (3305)

2003-02-03 15:52:52# 128. lþ. 70.96 fundur 396#B hækkun á leyfilegum heildarafla fiskveiðiárið 2002/2003# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 128. lþ.

[15:52]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Við höfum farið þá leið að ákveða einu sinni á ári hversu mikið megi veiða úr þeim fiskstofnum sem talið er nauðsynlegt að takmarka veiðar á. Ég tel með hliðsjón af ýmsum fiskifræðilegum þáttum eðlilegra að við færum okkur yfir í það að taka ákvarðanir til lengri tíma og höfum þar m.a. í huga að slíkar ákvarðanir gefa útgerðinni meiri stöðugleika og betra svigrúm til þess að skipuleggja rekstur sinn.

Það er afleitt þegar teknar eru árlegar ákvarðanir þar sem hámarksafli sveiflast töluvert og því þykir mér satt að segja mjög sérkennilegt að það er að verða regla fremur en undantekning að menn taki upp þessa skammtímaákvörðun sem gildir til eins árs í senn og ákveði nýjan hámarksafla eftir sex mánuði. Ég held að það hljóti á endanum að leiða til þess að við slíkar ákvarðanir minnki menn kvótann í ýmsum tegundum því ekki getur upptaka á miðju fiskveiðiári leitt einvörðungu til þess að auka fiskveiði úr einstökum stofnum.

Það er líka ótrúverðugt, herra forseti, að auka kvóta í tegund eins og ufsa svo mikið sem raun ber vitni gegn ráðleggingum Hafrannsóknastofnunar og gegn ráðleggingum ICES þannig að nú er ákvarðað að leyfa að veiða nærri því tvöfalt meira en hinir erlendu sérfræðingar lögðu til. Það er ekki langt síðan þeir lögðu til að beinni veiði á ufsa yrði hætt og aðeins ákvarðaður kvóti þannig að dygði fyrir meðafla. Hvaða fiskifræðilegu rök hafa komið fram, herra forseti, á undanförnum mánuðum sem gera mönnum kleift að taka ákvarðanir svo langt frá ráðleggingum fiskifræðinga sem raun ber vitni?

Það er líka dálítið ótrúverðugt að aðeins á sex mánuðum hafi stofninn í sandkola aukist þannig að hægt sé að auka veiði nærri því tvöfalt, eða úr 4 þús. tonnum í 7 þús. tonn. Ég tel því, herra forseti, rétt að menn fari mjög varlega í þessum efnum.