Hækkun á leyfilegum heildarafla fiskveiðiárið 2002/2003

Mánudaginn 03. febrúar 2003, kl. 15:55:12 (3306)

2003-02-03 15:55:12# 128. lþ. 70.96 fundur 396#B hækkun á leyfilegum heildarafla fiskveiðiárið 2002/2003# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 128. lþ.

[15:55]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Hér hefur hafist að mörgu leyti nokkuð fróðleg umræða að mínu viti. Í fyrsta lagi tel ég að sjútvrh. hafi gefið nokkuð merka yfirlýsingu hér áðan þó kannski hafi ekki allir veitt því athygli. Hæstv. ráðherrann fullyrti úr þessum stól að í fiskifræði værum við ávallt að vinna með gamlar tölur. Það er út af fyrir sig nokkuð merkileg yfirlýsing af hans hálfu. Ég verð að segja það alveg eins og er að ég held að ráðherranum sé að fara fram. Það er nefnilega dálítið til í þessu, sérstaklega að því er varðar botnfiskstofnana, að við séum oft að vinna með gamlar tölur. Það hafa nefnilega verið mjög skýrar vísbendingar um það í tillögum Hafrannsóknastofnunar á undanförnum árum að Hafrannsóknastofnun hefur verið á eftir í uppsveiflu og líka á eftir í niðursveiflu.

Menn vita það kannski ekki eða muna það ekki að í nokkur ár var hér frjáls veiði á ufsa vegna þess að aflamarkið í ufsa var alltaf miklu hærra en menn náðu að veiða. Þegar fiskimennirnir voru að benda á að það væri greinilegur mikill samdráttur í ufsaaflanum var svona hægt og rólega farið að draga úr aflanum. Það passaði að þegar búið var að færa hann niður í 20 þús. tonn, niður í lágmarkið, þá fóru menn náttúrlega að keyra fram úr og benda á að mikil ufsagengd væri á miðunum og það tók auðvitað einhvern tíma að lagfæra það. Við stunduðum því talsvert brottkast á ufsa í nokkur ár.

Það verður bara að segjast alveg eins og er, herra forseti, að mikið vantar á að Hafrannsóknastofnunin hafi rétta sýn á hvað er að gerast hér í almennri botnfiskveiði. Það segir ekki endilega það að ákvarðanir ráðherrans séu hinn rétti vegur og það er alveg rétt sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson vakti athygli á áðan að það er verið nærri að tvöfalda sandkolaveiðina og það var nærri tvöföld ýsuveiði þrátt fyrir kvótasetningu.