Hækkun á leyfilegum heildarafla fiskveiðiárið 2002/2003

Mánudaginn 03. febrúar 2003, kl. 15:57:44 (3307)

2003-02-03 15:57:44# 128. lþ. 70.96 fundur 396#B hækkun á leyfilegum heildarafla fiskveiðiárið 2002/2003# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 128. lþ.

[15:57]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér kom í pontu fyrir nokkrum dögum hæstv. forsrh. þessa lands til að svara fyrirspurnum um mótvægisaðgerðir gegn efnahagslegum afleiðingum stóriðjuframkvæmda. Hann kvað nú ekki mikla þörf á að ræða þau efni nú, hann væri hins vegar boðinn og búinn að gera það á árabilinu 2005--2007 þegar þessar afleiðingar væru farnar að koma í ljós. Þarna var hæstv. ráðherra nokkuð seinheppinn því á meðal afleiðinganna af risafjárfestingum í virkjun og þungaiðnaði eru einmitt áhrifin á gengi krónunnar. Það er ljóst að þessi áhrif vegna væntanlegra framkvæmda eru þegar farin að koma í ljós.

Eins og kom fram í máli málshefjanda þá hefur krónan styrkst um 3% það sem af er þessu ári, dollarinn dalað um 25% á einu ári. Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir að kaupmáttur okkar gagnvart innfluttri vöru úr Vesturheimi eykst, en að sama skapi veikjast útflutningsatvinnuvegirnir. Þetta bitnar einna helst á sjávarútveginum.

Útflutningsverðmæti í sjávarútvegi eru um 128 milljarðar kr. En nú reiknast mönnum til að vegna aukinna aflaheimilda muni útflutningsverðmætin aukast um 2,5--2,8 milljarða dollara.

Ég tek undir áhyggjur sem fram komu hjá hv. málshefjanda, Árna Steinari Jóhannssyni, um að þarna séu menn að grípa til ráðstafana vegna stóriðjuáforma ríkisstjórnarinnar, sem séu afskaplega vafasamar. Það er verið að heimila auknar veiðar gegn ráðleggingum fiskifræðinga til þess að styrkja sjávarútveginn. Mér finnst það slæm tilhugsun að við skulum ætla að niðurgreiða Alcoa með þessum hætti.