Hækkun á leyfilegum heildarafla fiskveiðiárið 2002/2003

Mánudaginn 03. febrúar 2003, kl. 16:04:38 (3310)

2003-02-03 16:04:38# 128. lþ. 70.96 fundur 396#B hækkun á leyfilegum heildarafla fiskveiðiárið 2002/2003# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 128. lþ.

[16:04]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Ég fagna ákvörðun hæstv. sjútvrh. um að auka aflaheimildir. Ég hlýt að fagna því að með þeirri ákvörðun skuli vera færðir um 2,5 milljarðar til viðbótar í íslenskt efnahagslíf. Það hlýtur að vera sérstakt fagnaðarefni í sjávarplássum og má líta á sem mótvægisaðgerðir gegn þeirri vá sem atvinnuleysið er.

Í máli hæstv. ráðherra hefur m.a. komið fram og eins hjá fulltrúum ráðuneytisins þegar þeir komu á fund hv. sjútvn. að fyrir þessari ákvörðun eru rök. Annars vegar er vísað til alþjóðasamninga þar sem við erum að tryggja hlutdeild okkar í svokölluðum flökkustofnum og hins vegar óvissuþættir. Þessi rök eru vissulega haldbær en hljóta líka að vekja upp ákveðnar spurningar. Í fyrsta lagi hljótum við að spyrja okkur hvort sambærileg rök út frá þeirri miklu óvissu sem er í þessum vísindum gildi þá ekki um aflaheimildir í þorski og hvort ekki sé ástæða til að líta vel yfir það.

Hins vegar vil ég nefna það sem hér hefur oft komið til umræðu og er kannski grundvallarþáttur í öllu sem heitir fiskveiðistjórn okkar, þ.e. fiskveiðiráðgjöfin, hvort ekki sé orðið tímabært að leggja verulega vinnu í að endurskoða þá stefnu sem verið hefur ríkjandi hjá okkur varðandi fiskveiðiráðgjöf. Hér hefur verið nefnd fiskifræði sjómannsins. Einnig má nefna fiskifræði annarra vísindamanna en þeirra sem starfa hjá Hafrannsóknastofnun, nöfn sem oft hafa verið nefnd hér í umræðunni, og gagnvart þessum tveimur þáttum höfum við síðan það sem má kalla skóla Hafrannsóknastofnunar. Það hlýtur að vera eðlilegt í ljósi þeirrar miklu óvissu að hvetja hæstv. ráðherra til þess að láta fara fram öfluga vinnu í þeim tilgangi að endurskoða þessa fiskveiðiráðgjöf og þann skóla sem hefur verið ríkjandi í þeim efnum á síðustu áratugum.