Hækkun á leyfilegum heildarafla fiskveiðiárið 2002/2003

Mánudaginn 03. febrúar 2003, kl. 16:11:53 (3313)

2003-02-03 16:11:53# 128. lþ. 70.96 fundur 396#B hækkun á leyfilegum heildarafla fiskveiðiárið 2002/2003# (umræður utan dagskrár), Flm. ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 128. lþ.

[16:11]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. En mér fannst ansi merkilegt koma fram í ræðu hæstv. sjútvrh. þegar hann talaði um gamlar tölur og ég er sammála þeim hv. þm. sem hafa talað um það hér að ástæða sé til að velta fyrir sér verklagi, vinnureglum og vinnufyrirkomulagi Hafrannsóknastofnunar. Mjög margt bendir til þess að við komum of seint fram með aukningu á kvóta og of seint með niðurskurð á kvóta líka, þarna er því eitthvert jafnvægi sem þarf að hyggja betur að. En mesta áhyggjuefnið nú um stundir er að þrátt fyrir þessa kvótaaukningu og þar með 2% bata fyrir útveginn í heild sinni, þá eru þessar gríðarlega neikvæðu blikur á lofti hvað varðar þróun gengisins. Og samkvæmt þeim upplýsingu sem maður fær þegar maður fer vítt og breitt um landið eru sumir hlutar vinnslunnar þegar komnir í bullandi mínus og þar kvarta sárast þeir sem eru t.d. í rækjuvinnslu á aðkeyptu efni.

Menn fullyrða að hér verði um mjög mikla erfiðleika að ræða á allra næstu mánuðum og missirum og þetta eru hlutir sem verður að bregðast við og reyna að lagfæra með öllum þeim ráðum sem tiltæk eru á hinu háa Alþingi og hjá ríkisstjórninni.

Þvert á móti ef ekkert verður að gert miðað við nýjustu ákvarðanir um stóriðjuuppbyggingu og virkjunarframkvæmdir, þá er margt sem bendir til þess að staða útvegsins og vinnslunnar versni enn, jafnvel með hækkandi gengi og e.t.v. styrkingu krónunnar enn frekar. (Gripið fram í.) Hér er því um gríðarlegt hagsmunamál að ræða og það er m.a. þess vegna sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð kallaði eftir því í síðustu viku að mótvægisaðgerðir hæstv. ríkisstjórnar vegna fyrirhugaðra framkvæmda lægju fyrir.