Námsstyrkir

Mánudaginn 03. febrúar 2003, kl. 16:20:10 (3316)

2003-02-03 16:20:10# 128. lþ. 70.22 fundur 446. mál: #A námsstyrkir# (heildarlög) frv., menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 128. lþ.

[16:20]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um námsstyrki.

Eitt af þeim markmiðum sem sett voru fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í maí 1999 var að tryggja öllum jöfn tækifæri til náms án tillits til búsetu eða efnahags. Í samræmi við þá markmiðssetningu var í menntmrn. sett í gang vinna sl. vor við endurskoðun núgildandi laga nr. 23/1989, um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði.

Við endurskoðun laganna fór fram skoðun á eldri löggjöf um sama efni svo og skoðun á sambærilegum reglum í nágrannalöndunum.

Markmiðið með endurskoðun laga nr. 23/1989, og um leið með frv. þessu, er að stuðla að því að tryggja öllum jöfn tækifæri til náms án tillits til búsetu eða efnahags. Önnur markmið, sem einnig voru höfð í huga við samningu frumvarpsins, voru í fyrsta lagi að gera það regluverk, sem fram kemur annars vegar í lögum nr. 23/1989 og hins vegar í gildandi reglugerð nr. 576/2002, um jöfnun námskostnaðar, sem sett hefur verið á grundvelli þeirra, sem aðgengilegast fyrir almenning, í öðru lagi að tryggja betur að þær reglur sem byggt hefur verið á í framkvæmd hafi skýra lagastoð og í þriðja lagi að reglur um úthlutun námsstyrkja leiði til þess að úthlutun styrkjanna verði allt í senn einföld, hraðvirk og ódýr.

Í almennum athugasemdum þessa frv. kemur fram að núgildandi lög, nr. 23/1989, séu að grunni til byggð á eldri lögum, nr. 69/1972, um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði.

Af fenginni reynslu er nauðsynlegt að ganga nú lengra við endurskoðun núgildandi laga og eru margvíslegar ástæður sem valda því. Ég hef þegar nefnt að þær reglur sem byggt hefur verið á í framkvæmd þurfi skýrari lagastoð.

Almennt orðalag gildandi laga hefur kallað á nánari útfærslu í reglugerðum, en slíkar reglugerðarsetningar hafa verið nokkuð tíðar á undanförnum árum. Þeim hefur verið ætlað að auðvelda námsstyrkjanefnd að meta umsóknir og jafnframt að skilgreina úthlutunarreglur nákvæmar en gert er í gildandi lögum þannig að þær yrðu aðgengilegri fyrir almenning. Þetta verk hefur verið vandasamt og jafnvel hefur komið til þess að umboðsmaður Alþingis hafi í áliti á síðasta ári talið að regla sem kvað á um misháa styrki eftir því hvar nemendur væru búsettir á landinu, ætti sér ekki stoð í gildandi lögum.

Í annan stað hefur námsframboð hér á landi stóraukist á undanförnum árum og kallar það einnig á þörf á endurskoðun með hliðsjón af breyttum aðstæðum.

Að síðustu hafa samgöngubætur orðið miklar hér á landi frá því núgildandi lög tóku gildi á árinu 1989, sem hefur leitt til þess að auðveldara er í einstökum landshlutum að sækja nám um langan veg. Af þeim sökum kalla breyttar aðstæður í samgöngumálum að nokkru á breyttar reglur um námsstyrki til jöfnunar á námskostnaði.

Helstu efnislegu breytingarnar sem er að finna í þessu frumvarpi eru að öðru leyti eftirfarandi:

Skilgreining á einstaklingum sem njóta námsstyrkja er rýmkuð og látin ná til erlendra ríkisborgara. Þannig er tekið tillit til réttar þeirra sem grundvallast á alþjóðlegum skuldbindingum.

Í frumvarpinu eru einstök hugtök sem í því birtast skilgreind í IV. kafla, almennum athugasemdum. Fela skilgreiningarnar í sér rýmkun frá því sem lagt var til grundvallar við framkvæmd eldri laga. Veigamesta breytingin er á skilgreiningu hugtaksins ,,fjölskylda``.

Í frumvarpinu eru teknar upp reglur sem áður var að finna í reglugerðum sem settar voru á grundvelli eldri laga. Með þeim hætti er tryggt að einstök skilyrði, sem áður var að finna í reglugerðum settum á grundvelli laganna, hafi ótvíræða lagastoð. Það ákvæði sem hér er veigamest er hin svokallaða ,,30 km regla``.

Málsmeðferð samkvæmt lögunum er breytt þannig að allir tímafrestir verða styttri en verið hefur. Ástæðan fyrir þessari málsmeðferð er sú að nemendum er nauðsynlegt að fá endanlega ákvörðun varðandi umsóknir sínar á sem stystum tíma.

Um einstakar greinar frv. bendi ég á að í 1. gr. er markmiðum þess lýst með almennum hætti, en ákvæðið er samhljóða 1. gr. núgildandi laga nr. 23/1989.

Í 2. gr. frv. eru talin upp þau almennu skilyrði sem umsækjandi um námsstyrk þarf að fullnægja svo hann fái úthlutað námsstyrk. Ákvæðið er að mestu leyti samhljóða 2. gr. gildandi laga en þó er um tvenns konar breytingar að ræða: Annars vegar nær ákvæðið samkvæmt frumvarpinu jafnt til íslenskra sem erlendra ríkisborgara sem eiga rétt til námsstyrks samkvæmt samningi íslenska ríkisins við önnur ríki eins og ég gat um áðan. Hér er einkum litið til skuldbindinga sem byggjast á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Hins vegar er í ákvæðinu það skilyrði að nemandi verði að dveljast fjarri fjölskyldu sinni vegna námsins til að eiga rétt til námsstyrks. Þetta skilyrði er einnig í 2. gr. núgilandi laga nr. 23/1989 og hefur verið litið svo á að með ,,fjölskyldu`` í þessu sambandi sé eingöngu átt við foreldra. Þannig hefur það verið skilgreint í reglugerð.

Í IV. kafla almennra athugasemda í frv. þessu er hugtakið ,,fjölskylda`` skilgreint sérstaklega og mun rýmra en áður. Ástæðan fyrir þessari breytingu er að fjölskylduaðstæður hafa á undanförnum árum breyst. Þannig búa nemendur oft fjarri foreldrum sínum og auk þess hefur sú þróun orðið að nemendur búa fjarri fjölskyldu sinni, nánar tiltekið maka sínum og börnum. Að auki hefur það leitt til vandræða í framkvæmd að setja það sem skilyrði að nemandi hafi sama lögheimili og foreldrar eftir að lögræðisaldri er náð, nú við 18 ára aldur eins og lögræðislög kveða á um. Skilgreining á ,,fjölskyldu`` í almennum athugasemdum þessa frv. tekur því mið af því að óeðlilegt sé að setja það skilyrði að einstaklingur hafi sama lögheimili og foreldrar hans eftir að lögræðisaldri er náð.

Í 3. gr. frv. er lagt til að námsstyrkir verði flokkaðir með nokkuð öðrum hætti en gert er í núgildandi lögum. Meginflokkarnir eru þeir sömu og meginmarkmið hvers styrks er það sama. Breytingin felst aðallega í því að hér eru styrkirnir flokkaðir á svipaðan hátt og gert er í núgildandi reglugerð nr. 576/2002, jafnframt því sem hin sérstöku skilyrði sem umsækjendur þurfa að uppfylla eru skilgreind nákvæmar en gert hefur verið áður. Hið sama má segja um viðmið sem nota skal við útreikning hvers styrks. Í núgildandi lögum eru skilgreiningar ekki eins skýrar og þar verður að lesa saman 2. gr. og 5. gr. til að fá nákvæma mynd af styrkjakerfinu. Hér er lagt til að ákvæði þessara greina verði sameinuð. Meginmarkmiðið er að gera reglurnar aðgengilegri og veita þeim úthlutunarreglum sem að meginstefnu hefur verið fylgt lagastoð.

Þá vek ég sérstaklega athygli á því að í 3. gr. er lagt til að lögfest verði svokölluð ,,30 km regla`` sem er sérstök fjarlægðarregla sem stuðst hefur verið í framkvæmd og verið hefur í reglugerð án ótvíræðrar lagastoðar. 30 km reglan felur í sér að umsækjendur þurfa að vista sig a.m.k. 30 km frá lögheimili vegna námsins til að eiga rétt á dvalarstyrk. Til að tryggja að jafnræðis sé gætt er jafnframt lagt til að námsstyrkjanefndin hafi heimild til að veita dvalarstyrk þó svo að fjarlægðin sé styttri en 30 km ef samgöngur til og frá skóla eru nemanda sérstaklega erfiðar með tilliti til veðráttu, ástands vega og almenningssamgangna.

Segja má að 30 km reglan feli í sér mismunun sem telja verður réttlætanlega að teknu tilliti til þess að ákvæðinu er ætlað að jafna þann fjárhagslega aðstöðumun sem felst annars vegar í efnaleysi nemenda og hins vegar í búsetu nemenda sem rekja má til landfræðilegra þátta.

Herra forseti. Ég hef hér rakið efni frv. í meginatriðum en sé ekki ástæðu til þess að fjalla frekar um einstakar greinar þess, heldur vísa ég til frumvarpsins sjálfs og eftir atvikum til umfjöllunar í athugasemdum þess.

Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. menntmn. og 2. umr.