Námsstyrkir

Mánudaginn 03. febrúar 2003, kl. 16:29:07 (3317)

2003-02-03 16:29:07# 128. lþ. 70.22 fundur 446. mál: #A námsstyrkir# (heildarlög) frv., EMS
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 128. lþ.

[16:29]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra er hér fyrst og fremst verið að lögfesta ýmislegt sem áður hefur verið í reglugerð. Ekki er annað að sjá við yfirlestur á frv. en að flest sé þar til bóta og einföldunar og geri starf þeirrar nefndar sem sér um úthlutanir auðveldara.

Nokkur atriði eru hins vegar eðli málsins samkvæmt umdeilanleg a.m.k. og þar vísa ég náttúrlega fyrst og fremst til hinnar svokölluðu 30 km reglu. Það er auðvitað erfitt að setja slíkt viðmið inn í lagatextann en það er verið að reyna að bjarga því fyrir horn með viðbótargreinum, þannig að heimilt sé að veita dvalarstyrk þótt fjarlægð sé styttri ef aðstæður eru svo sem nánar er skilgreint í textanum. Það er auðvitað ljóst að aðstæður eru svo misjafnar að það væri ógjörningur að miða eingöngu við slíka reglu. Þess vegna fagna ég því ákvæði sem fylgir lagagreininni og vonast til að þar komi ekki upp vandræði við skilgreiningar. Auðvitað verður það nefndarinnar sem fer með úthlutunina að meta það.

Það er þó annar liður í 3. gr. sem er spurning hvort þyrfti að skilgreina nánar, þ.e. skólaakstursstyrkurinn. Í frumvarpstextanum segir, með leyfi forseta:

,,Skilyrði skólaakstursstyrks er að nemandi verði að sækja skóla fjarri fjölskyldu sinni og eigi ekki rétt á dvalarstyrk.``

Málið er nokkuð skýrt með dvalarstyrkinn, með þeim fyrirvara sem ég talaði áðan um varðandi 30 km regluna. Hins vegar er engin skilgreining á því hvað felst í orðunum ,,fjarri fjölskyldu sinni``. Það er atriði sem við þurfum að fara betur yfir í menntmn., hvort ástæða sé til að gera textann skýrari eða skoða út frá ýmsum landfræðilegum dæmum hvað þarna er átt við. Það er t.d. ljóst að það er mjög misjafnlega langt í framhaldsskóla þó svo að framhaldsskóli sé í heimasveitarfélagi nemanda. Á undanförnum árum hafa sveitarfélög verið að sameinast og víða þannig ástatt um að það er býsna langt milli enda ef við getum orðað það svo. Við getum tekið Ísafjörð sem dæmi, sem er auðvitað töluvert langt frá ýmsum þéttbýliskjörnum innan sveitarfélagsins. Sama er að segja um Fjarðabyggð. Við eigum svona dæmi sem þarf auðvitað að fara yfir og kanna hvort ástæða sé til að setja nánari skilgreiningar um í textann eða setja í nefndarálit þannig að það mætti leysa með reglugerðarákvæði.

Hitt er ljóst og skiptir kannski ekki síður máli en það er sú heildarfjárhæð sem er veitt í þessu markmiði, að jafna aðstæður fólks hvað þetta varðar. Eins og segir í 4. gr. er það ákveðið á fjárlögum hvers árs. Fjárveitingin hefur hækkað nokkuð undanfarin ár en betur má ef duga skal eigi að ná til fullnustu þeim markmiðum sem sett eru með þessu lagafrumvarpi.

Það er hins vegar athyglisvert, og væri fróðlegt ef hæstv. ráðherra gæti upplýst okkur nánar um það síðar í umræðunni, sem segir í umsögn fjármálaráðuneytisins:

,,Að mati bæði fjármálaráðuneytis og menntamálaráðuneytis hefur frumvarpið í för með sér óverulega breytingu á útgjöldum ríkissjóðs.``

Þetta þýðir væntanlega að sú útvíkkun sem hér á sér stað, þ.e. varðandi erlenda ríkisborgara, nær aðeins til örfárra aðila. Ég skil það þannig, komi ekki við því aðrar skýringar, að önnur útvíkkun í þessu lagafrv. sé í raun sáralítil ef nokkur. Það virðist, eins og hæstv. ráðherra sagði, fyrst og fremst verið að lögfesta ákveðna þætti úr þeirri reglugerð sem menn hafa farið eftir undanfarin ár. Þetta muni því ekki sjálfkrafa þýða aukin útgjöld. Ef menn ætla hins vegar að tryggja jafnræðið sem allra best er augljóst að við gerð næstu fjárlaga verður að hækka upphæðina, ef við ætlum ná meiri jöfnuði eins og sumir telja þurfa.

Herra forseti. Ég held að það sé ljóst að menntmn. þarf ekki ýkja langan tíma til að fara yfir þetta frv. Það er einstaka ákvæði sem þarf að skoða. Ég trúi því að það náist að afgreiða það fyrir þinglok þannig að þessi lög megi öðlast gildi, eins og segir í 9. gr., þann 1. júlí 2003.