Neytendakaup

Mánudaginn 03. febrúar 2003, kl. 17:07:31 (3324)

2003-02-03 17:07:31# 128. lþ. 70.23 fundur 556. mál: #A neytendakaup# (EES-reglur) frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 128. lþ.

[17:07]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um neytendakaup. Það er á þskj. 904 og er 556. mál þingsins.

Frv. miðar að því að koma til framkvæmda hér á á landi tilskipun Evrópusambandsins 99/44/EB frá 25. maí 1999, um tiltekna þætti í sölu neysluvara og ábyrgð þar að lútandi.

Frv. byggist í meginatriðum á umræddri tilskipun en einnig var höfð hliðsjón af norrænum rétti við samningu þess.

Ákvæði um neytendakaup voru í fyrsta sinn fest í lög hér á landi með lögum nr. 50/2000, um lausafjárkaup. Með frv. þessu er lagt til að ákvæði um neytendakaup verði tekin út úr lögum um lausafjárkaup og að sett verði heildstæð lög um neytendakaup.

Frv. hefur það meginmarkmið að efla réttarstöðu neytenda. Þrátt fyrir að nauðsyn lagasetningar sé að mestu hin sama fyrir neytendakaup og önnur kaup eru sérstök lög um neytendakaup mun skýrari fyrir hinn almenna neytanda. Hinum almenna neytanda hefur oft reynst erfitt að fá yfirlit yfir gildandi reglur um kaup þar sem núgildandi lög um lausafjárkaup eru nokkuð flókin. Er setning sérstakra laga, sem ætlað er að gilda aðeins um kaup þar sem seljandinn hefur atvinnu sína af sölu og kaupandinn er leikmaður, til þess fallin að einfalda lagaákvæði um neytendakaup og gera þau auðskiljanlegri og gegnsærri fyrir hinn almenna neytanda. Með sérstökum lögum um neytendakaup er einnig auðveldara að bregðast við breytingum á markaði og aðlaga lagaumhverfi sérstökum þörfum neytenda. Þá er mikilvægt að íslensk löggjöf fylgi alþjóðlegri réttarþróun og þróun í nágrannaríkjum okkar.

Í frv. er að finna heildstæðar reglur um neytendakaup. Flest ákvæðanna er nú að finna í lögum um lausafjárkaup, nr. 50/2000, en sum ákvæðanna eru nýmæli í íslenskri löggjöf. Lagt er til að frv. innihaldi tæmandi reglur um neytendakaup líkt og lög um lausafjárkaup gera í dag.

Í I. kafla frv. eru ákvæði um gildissvið laganna. Þá eru hugtökin neytendakaup og neytandi skilgreind í kaflanum og kveðið er á um að lögin séu ófrávíkjanleg. Frv. gerir ráð fyrir rýmkun á gildissviði miðað við gildandi lög að því er það varðar að lögum um neytendakaup er ætlað að gilda um pöntunarkaup þar sem neytandinn útvegar sjálfur efni eða verulegan hluta þess. Þá er gert ráð fyrir að lögin nái til kaupa neytenda á kröfum og réttindum.

Í II. kafla frv. er að finna ákvæði um afhendingu söluhlutar og felur frv. í sér nokkra einföldun frá ákvæðum laga um lausafjárkaup að því er það varðar.

Í III. kafla er að finna reglur um áhættu á söluhlut, hvað felst í áhættu á söluhlut, hvenær áhættan af söluhlut flyst frá seljanda yfir til neytanda og hver aðaláhrif þess séu.

Í IV. kafla frv. er fjallað um hvaða eiginleika söluhlutur á að hafa og hvenær söluhlutur telst gallaður. Reglur frv. eru að flestu leyti sambærilegar við gildandi lög um lausafjárkaup en þó er að finna í ákvæðinu nokkur nýmæli sem rekja má til Evróputilskipunarinnar um neytendakaup.

Í V. kafla er fjallað um úrræði neytanda vegna afhendingardráttar seljanda.

Í VI. kafla frv. er fjallað um úrræði neytanda vegna galla á söluhlut. Er m.a. kveðið á um rétt neytanda til að halda eftir greiðslu kaupverðs, riftunarrétt og rétt neytanda til skaðabóta.

Í VII. kafla koma fram reglur um skyldur neytanda gagnvart seljanda, m.a. varðandi greiðslu kaupverðs, greiðslustað kaupverðs og atbeina neytanda að efndum kaupa.

Í VIII. kafla frv. er að finna nokkrar nýjungar frá gildandi kaupalögum en þar er fjallað um afpöntun og skilarétt.

Þá er í IX. kafla fjallað um úrræði seljanda þegar vanefndir hafa orðið af hálfu neytanda.

Í X. kafla frv. er að finna reglur um riftun og nýja afhendingu.

Í XI. kafla koma fram reglur þær sem gilda um skaðabætur samkvæmt frv.

Í XII. kafla frv. er safnað saman ýmsum ákvæðum, m.a. koma þar fram reglur um hvernig fara skuli með það þegar vanefndir verða á hluta hins selda.

Í XIII. kafla er loks fjallað um gildistöku frv. og breytingar á lögum nr. 50/2000, um lausafjárkaup, sem miða að því að fella út úr lögunum allar sérreglur sem nú gilda um neytendakaup.

Umfang neytendaverndar hefur vaxið ört á Íslandi á undanförnum árum og má m.a. rekja það til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Neytendaréttur hefur einnig verið í örri þróun á Norðurlöndum og fengið mikla athygli innan Evrópusambandsins.

Hérlendis hafa ný lagafyrirmæli verið sett og gildandi lögum breytt, m.a. til þess að fullnægja samningsskyldum Íslands á grundvelli EES-samningsins.

Við setningu nýrra kaupalaga sem tóku gildi 1. júní 2001 var réttarstaða neytenda styrkt mjög og með setningu laganna var fyllt inn í þá eyðu sem myndast hafði í annars heildstæðri löggjöf á sviði neytendaverndar. Með lögfestingu sérstakra laga um neytendakaup yrði réttarstaða neytanda efld enn frekar og verður vernd neytenda samkvæmt íslenskum lögum þá sambærileg og tíðkast í nágrannaríkjum okkar.

Hæstv. forseti. Ég mælist til þess að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.