Aðgerðir gegn peningaþvætti

Mánudaginn 03. febrúar 2003, kl. 17:16:50 (3326)

2003-02-03 17:16:50# 128. lþ. 70.25 fundur 549. mál: #A aðgerðir gegn peningaþvætti# (EES-reglur) frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 128. lþ.

[17:16]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 80/1993, um aðgerðir gegn peningaþvætti, með síðari breytingum, sem er á þskj. 896 og er 549. mál þingsins.

Á vettvangi ESB hefur verið samþykkt tilskipun nr. 2001/97/ESB, um breytingu á tilskipun 91/308/EBE, um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfi sé notað til peningaþvættis. Í þessari tilskipun er að finna nokkur nýmæli á sviði aðgerða gegn peningaþvætti sem nauðsynlegt er að sett séu í íslensk lög um þetta efni. Auk þess vil ég geta þess að Ísland hefur frá upphafi tekið þátt í starfsemi FATF-ríkjahópsins (Financial Action Task Force on Money Laundering) um aðgerðir gegn peningaþvætti og innleitt hinn svonefnda FATF-tilmæli er miði að því að koma í veg fyrir að íslenskt fjármálakerfi sé misnotað í þessum tilgangi. Á grundvelli þess samstarfs eru gerðar reglulegar úttektir á því hvernig í lögum og framkvæmd er staðið að aðgerðum gegn peningaþvætti hér á landi og er frv. þetta að hluta til byggt á ábendingum sem hafa komið fram við gerð slíkra úttekta á Íslandi.

Ég vil þá víkja aðeins nánar að einstökum ákvæðum frv.

Í frv. er lagt til að gildissvið laga um aðgerðir gegn peningaþvætti verði rýmkað þannig að þau munu framvegis einnig taka til þeirra sem hafa milligöngu um kaup og sölu fasteigna, skipa, eðalmálma og listaverka, sbr. nánar 1. gr. frv., en það er nýmæli og jafnframt í samræmi við áðurnefnda tilskipun Evrópusambandsins á því sviði.

Í 1. gr. frv. er einnig að finna nokkrar orðalagsbreytingar á hugtökum gildandi laga, sem m.a. má rekja til nýrra laga um fjármálafyrirtæki sem samþykkt voru á Alþingi í lok ársins 2002. Við undirbúning frv. hefur einnig verið höfð hliðsjón af tilmælum sem FATF-ríkjahópurinn hefur beint til aðildarríkjanna að taka tillit til í löggjöf á þessu sviði.

Í 2. gr. frv. er skerpt á þvættishugtaki gildandi laga og nú er skýrt tekið fram að sú háttsemi ein að einhver taki að sér að fela eða dylja ávinning af refsiverðum verknaði sé peningaþvætti í skilningi laganna. Auk þess eru í þessari grein lagðar til framangreindar breytingar. Einnig er í þessari grein lagt til að inn í lögin komi skilgreining á hvað sé átt við með hugtakinu ,,ávinningur`` og er það þáttur í því að leiða í íslensk lög ákvæði tilskipunar ESB um þetta efni.

Í 3. gr. er að finna ákvæði sem gerir ríkari kröfur til framvísunar persónuskilríkja þegar greiddir eru út vinningar í fjárhættuspili, en reynslan erlendis frá hefur sýnt að meiri aðgæslu kann að vera þörf við slíkar kringumstæður.

Í 3. gr. einnig að finna ákvæði sem gerir meiri kröfur um aðgæslu þegar stofnað til viðskipta með notkun fjarskiptaaðferða sem verða sífellt algengari með aukinni útbreiðslu á fjarsölu og öðrum þess háttar söluaðferðum sem notaðar eru í vaxandi mæli við sölu á fjármálaþjónustu.

Í 4. gr. frv. er kveðið á um fræðsluhlutverk lögregluyfirvalda. Í framkvæmd hefur efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra sinnt að nokkru leyti slíku fræðsluhlutverki á liðnum árum. Það hefur sýnt sig að mikil nauðsyn er á því að þeir einstaklingar sem verða við störf sín að taka tillit til ákvæða þessara laga fái viðhlítandi fræðslu og leiðbeiningar, hvernig unnt sé að greina ólögleg viðskipti af því tagi sem lögin taka til. Nú þegar gildissvið laganna er rýmkað þykir rétt og eðlilegt að árétta þetta hlutverk lögreglunnar í lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti.

Í 5. gr. frv. er ákvæði þar sem lagt er til að aðilum sem lög þessi taka til verði gert skylt að gera skriflegar skýrslur um öll grunsamleg tilvik sem koma upp í viðskiptum þeirra, en ekki aðeins um þau tilvik sem eru formlega tilkynnt til lögregluyfirvalda. Að baki þessa ákvæðis búa mikilvægir rannsóknarhagsmunir, en það kann að vera rík þörf á því jafnvel nokkrum árum eftir að atvik átti sér stað að unnt sé að skoða hugsanleg tengsl slíkra mála sem ekki hafa verið tilkynnt við mál sem til rannsóknar kunna að vera á hverjum tíma.

Í kjölfar aukinnar hættu á hryðjuverkaárásum hafa kröfur á alþjóðavettvangi verið hertar um aðgæslu á þessu sviði, en auk þess hefur FATF-ríkjahópurinn beint þeim tilmælum til aðildarríkja sinna að þau taki upp slíkt verklag við varnir gegn peningaþvætti.

Þá er í greininni einnig lagt til að í slíkum innri starfsreglum fyrirtækja sé skilgreint hvaða kröfur þau geri til starfsfólks sem gegnir trúnaðarstörfum hjá fyrirtækjum sem lögin taka til.

Loks er í 6. gr. frv. að finna ákvæði sem veitir Fjármálaeftirlitinu rétt og skyldur til að gefa út tilkynningar og leiðbeiningar ef þörf er á sérstakri varúð í viðskiptum við ríki eða ríkjasvæði sem ekki fylgja alþjóðlegum reglum um aðgerðir gegn peningaþvætti.

Á undanförnum árum er að finna dæmi um slíkar aðvaranir t.d. frá FATF-ríkjahópnum. Eðlilegt er að innlend eftirlitsyfirvöld hafi heimild í lögum og jafnframt skyldu til að miðla slíkum varúðartilkynningum til innlendra fjármálafyrirtækja.

Hæstv. forseti. Ég mælist til þess að málinu verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.