Afgreiðsla forsætisnefndar á beiðni um skýrslu

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 13:41:01 (3335)

2003-02-04 13:41:01# 128. lþ. 71.91 fundur 397#B afgreiðsla forsætisnefndar á beiðni um skýrslu# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[13:41]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Hér er verið að reyna að gera tiltölulega einfalda hluti flókna. Í bréfi þingmanna Samfylkingarinnar til forsn. Alþingis þann 5. nóv. sl. segir svo orðrétt, með leyfi forseta:

,,Með vísan til síðari málsl. 1. mgr. 3. gr. laga um Ríkisendurskoðun, nr. 86/1997, vil ég fyrir mína hönd og annarra þingmanna Samfylkingarinnar, fara þess á leit við forsætisnefnd Alþingis að hún feli Ríkisendurskoðun að gefa Alþingi skýrslu um fjárhagsleg uppgjör Landssíma Íslands hf. við fyrrverandi forstjóra fyrirtækins, Þórarin Viðar Þórarinsson, sem gert var í tengslum við starfslok hans hjá fyrirtækinu, auk tengdra atriða.``

Hvað er svona flókið í þessari beiðni að hún þurfi að fara á milli mála?

Í öðru lagi vil ég segja þetta, herra forseti: Skylt er skeggið hökunni. Það liggur algerlega ljóst fyrir að hæstv. samgrh. er ekki maður til þess að koma hér og reyna að bera skjöld fyrir forseta þingsins ellegar að bera sakir á menn sem eru að sinna þinglegum skyldum sínum. Því sannleikur málsins er sá að hæstv. samgrh. gat sjálfur komið í veg fyrir allt það sem í hönd hefur farið. Hann gat það einfaldlega með því að birta umbeðnar upplýsingar þegar eftir var leitað. Hann skipar stjórn Landssímans hf. Hann ræður stjórnina og rekur hana. Og það rekur nú minni til þess að tveir hv. þm. í þessum sal, hv. þm. Magnús Stefánsson og Jónína Bjartmarz, voru meðal þeirra sem þurftu að fjúka vegna þess að hæstv. ráðherra réð ekki við stjórn fyrirtækisins og réð ekki við stjórn mála á þeim bænum. Þannig hefur hæstv. samgrh. auðvitað öll tök í hendi sér að leysa nú þetta mál í eitt skipti fyrir öll og hæstv. forseta frá meintri sök og birta umbeðnar upplýsingar. Hann yrði maður að meiri í þeim efnum heldur en reyna að koma hér og vanda um fyrir hv. þingmönnum. --- Maður, líttu þér nær.