Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 14:25:23 (3346)

2003-02-04 14:25:23# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[14:25]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst er til að taka að félmrh. hefur ekki óskað sérstaklega eftir því að verkefnum yrði flýtt heldur hefur það spunnist af umræðum innan ríkisstjórnarinnar og innan samgrn. Ég lýsti því yfir að ég hefði beint þeim tilmælum til stofnana samgrn. að reynt yrði að hraða undirbúningi og framkvæmdum innan ársins 2003 eins og kostur væri.

Stofnanir hafa að sjálfsögðu orðið vel við þessum óskum mínum. Ef litið er til hafnargerðar er nú út af fyrir sig ekki af miklu að taka á höfuðborgarsvæðinu í hafnargerð. En framkvæmdir við hafnargerð á landinu, þær stærstu, eru allar í fullum gangi. Gert er ráð fyrir því að næstum allar framkvæmdir á þeim sviðum komist mjög fljótlega af stað. Það mun nýtast til að styrkja atvinnulífið.

Á sviði flugmála eru ekkert mjög stór verkefni, fyrst og fremst er verið að ljúka við framkvæmdir við Reykjavíkurflugvöll. En í vegamálunum munar mest um framkvæmdirnar. Þar vil ég nefna sérstaklega útboð á framkvæmdum við mislæg gatnamót við Stekkjarbakka, mjög stórt verkefni sem ég geri ráð fyrir að verði boðið út á næstunni. Sömuleiðis er verið að vinna að undirbúningi framkvæmda við Reykjanesbrautina í gegnum Garðabæ og Hafnarfjörð. Þar eru skipulagsvandamál. Sama á sér stað í Mosfellsbænum. Það hefur tafið að skipulag og niðurstaða samkomulags við sveitarfélögin hefur ekki legið fyrir.

Um allt land er verið að herða á framkvæmdum og útboðum, m.a. verður á næstu vikum, innan tveggja vikna væntanlega, boðin út brú yfir Kolgrafarfjörð. Jarðgangaútboðin eru í undirbúningi og þannig munu á næstunni sjást merki þess að Vegagerðin hafi orðið við þessari ósk minni.