Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 14:31:06 (3349)

2003-02-04 14:31:06# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[14:31]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Þessar tillögur til þál. um samgöngumál eru í sjálfu sér nýbreytni að hér er sameiginlega lögð fram ályktun og áætlun um samræmdar samgöngur í landinu, hvað varðar flug, siglingar, vegi og almenningsflutninga. Ég tel þetta vera til mikilla bóta og bjóða upp á markvissari vinnubrögð og markvissara starf á næstu árum.

Það sem ég vildi gera að umtalsefni er sú staðreynd sem hefur komið fram bæði í mati efnahagsskrifstofu fjmrn. og nú síðast t.d. hjá greiningardeild Búnaðarbanka Íslands, að verði af fyrirhuguðum framkvæmdum við Kárahnjúka og álverksmiðju á Reyðarfirði, þá er um svo gríðarlegt fjármagn að ræða sem kemur inn í hagkerfið að allir þessir aðilar segja að það muni á ákveðnu tímabili verða að draga úr öðrum umsvifum, það muni verða ef á að freista þess að halda böndum utan um efnahagslíf Íslendinga.

Minnst hefur verið á þann möguleika að flýta framkvæmdum meðan svigrúm er til. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort kannaðir hafi verið möguleikar á því að flýta framkvæmdum einmitt á þeim landsvæðum sem verða hvað harðast úti verði af væntanlegum framkvæmdum fyrir austan, þ.e. af þeim efnahagsáhrifum sem af því verða, t.d. á Vestfjörðum og Norðurl. v. Er verið að kanna að flýta framkvæmdum t.d. á Vestfjörðum sem er afar brýnt og sömuleiðis á Norðurl. v. sem ég rek ítarlegar í seinna andsvari?