Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 14:39:10 (3353)

2003-02-04 14:39:10# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., KLM
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[14:39]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Við ræðum nú samtímis tvær afar merkilegar þáltill. sem hér hafa verið fluttar. Það er annars vegar þáltill. um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006 sem er náttúrlega það sem málið snýst um núna næstu fjögur ár hvaða framkvæmdir verða og hvað verður gert á sviði þeirra samgöngumálaflokka sem tillagan fjallar um. Hins vegar hina stóru samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014, eða 12 ára áætlun. Við ræðum þær saman, herra forseti, og ég mun því nýta mér það að fá að fara í gegnum þær svona sitt á hvað enda skarast þetta mjög oft.

Fyrir það fyrsta vil ég segja að við þingmenn Samfylkingarinnar studdum þá áætlun eða þá samþykkt sem gerð var á Alþingi um að vinna að samræmdri samgönguáælun eins og hér hefur litið dagsins ljós jafnframt því sem við höfum samþykkt á þessu kjörtímabili þær áætlanir hvort sem það var vegáætlun, hafnaáætlun, flugmálaáætlun eða sjóvarna\-áætlun, þær tillögur höfum við einnig samþykkt. Þar með er ekki endilega sagt að við séum alls kostar ánægð með allt sem í þeim stendur. Það má kannski segja sem svo að við séum e.t.v. ánægð með það sem í tillögunum stendur en það sem menn eru óánægðir með er það sem ekki stendur í þeim vegna þess að ég hygg að það sé svo með alla þingmenn á hinu háa Alþingi að öllum finnst það vera of lítið sem inni í þessu er.

Eins og ég sagði, herra forseti, er í stóru áætluninni, þessari til 12 ára, fjallað um þau helstu atriði og stefnumótun sem þar er að finna. Fyrir það fyrsta vil ég segja að hér erum við vissulega að stíga fyrstu skref í þeirri áætlun. Ég er viss um að ýmiss konar samlegðaráhrif eiga eftir að koma fram á næstu 5--10 árum en það tekur langan tíma að sjá ýmislegt smella betur saman sem auðvitað er stór tilgangur með því að búa þetta svona til, annars vegar það og hins vegar að nýta betur fé til framkvæmda.

Í almennum stefnumótunum er fjallað um markmið með greiðari samgöngum, flytjanleika samgöngukerfisins og er þar fjallað um að þetta eigi að virka bæði fyrir fólk og vörur. Þetta er auðvitað göfugt markmið og þar kemur fram að þetta eigi að skapa skilyrði fyrir flesta landsmenn að komast til og frá höfuðborgarsvæðinu á innan við þremur og hálfri klukkustund á ferðatíma. Þetta er auðvitað göfugt markmið. Við höfum séð hvernig framkvæmdir í vegamálum stytta ferðatímann þó kílómetrafjöldinn sé ekki alltaf að styttast en einnig ber að huga að því að margir staðir, sérstaklega lengra frá höfuðborgarsvæðinu eru háðir flugsamgöngum. Sem betur fer hefur verið gripið til þess ráðs að styrkja flugsamgöngur við ýmis minni byggðarlög vegna þess að til að inna af hendi það meginmarkmið að menn komist til og frá höfuðborgarsvæðinu á þremur og hálfri klukkustund verða að vera góðir flugvellir og góðar flugsamgöngur vegna þess að margir munu ekki eiga þess kost að ná því akandi.

Jafnframt er fjallað um almenningssamgöngur, í lofti, á sjó og á landi og þær verði skipulagðar þannig að þær verði til allra þéttbýlisstaða með um 200 íbúum eða fleiri. Þetta er líka mjög göfugt markmið. En auðvitað er það þannig að almenningssamgöngur á Íslandi eru í skötulíki, því miður, það verður að segjast að svo er ef við undanskiljum strætisvagnaakstur í stærstu kaupstöðum landsins. En ég hygg að það sé ekki endilega og eingöngu því að kenna að kerfi sé ekki til heldur er það þannig með okkur Íslendinga, og það kemur fram í þessum gögnum hér um bílaeign landsmanna og ég held að það segi allt sem segja þarf, að það er einfaldlega háttur okkar Íslendinga að nýta okkur ekki mikið almenningssamgöngur heldur fara ferða okkar akandi í bílum og þá er jafnvel einn í hverjum bíl og jafnvel fara 3--4 bílar frá hverju heimili. Það er kannski dæmi um þá velmegun sem er á Íslandi.

Um markmiðið með öryggi í samgöngum er ekki nema gott eitt að segja, hvort sem það er í flugmálaáætlun og auðvitað kemur sú mikla umræða sem hefur átt sér stað á Alþingi inn í þá áætlun um flugöryggismál sem náttúrlega stórjukust við árásina á turnana í New York og það sem þar gerðist. Í sambandi við sjóinn er fjallað um langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda, sem menn hafa stundum sagt að sé stysta langtímaáætlun sem til er en hún var til tveggja eða þriggja ára.

Varðandi öryggisþáttinn í umferðinni, á vegum, þá er það hárrétt að þar má margt betur fara. Hinir svörtu blettir í umferðarkerfi okkar Íslendinga eru margir og banaslys eru því miður allt of mörg og alvarleg slys í umferðinni. Þetta á náttúrlega skýringu langt aftur í tímann þegar við vorum að byggja upp vegi og höfðum minna fé og kannski ekki eins mikla tækni eða kannski var eingöngu skortur á peningum þegar menn voru að gera þetta, vegirnir voru mjóir eins og hæstv. samgrh. gat um áðan og fjallaði um hvernig menn eru að fara út í það að gera breiðari vegi sem er náttúrlega í takt við hinar miklu breytingar sem hafa átt sér stað í flutningum landsmanna, þ.e. að megnið af öllum flutningum til og frá höfuðborgarsvæðinu fer nú fram á vegum landsins með flutningabílum en ekki með skipum eins og áður var.

Þá vil ég geta þess, herra forseti, og ég hef sagt það áður að fé til umferðaröryggismála er allt of lítið. Það hefur áður komið fram og ég ætla ekki að lengja þá umræðu nú eða fara yfir þau atriði, en þar vantar peninga til þess að taka á.

Eins og ég sagði áðan, herra forseti, er fjallað um þá meginþætti sem þessi áætlun byggir á, þ.e. flugmálaáætlun, siglingamálaáætlun og vegáætlun og ég ætla ekki að ræða einstaka þætti enda gefst ekki tími til að fara í gegnum þá en þó ætla ég aðeins að stoppa við einstaka þætti.

[14:45]

Ég byrja á því er snertir flugmálaáætlun í þessari tillögu. Hér er fjallað um hinar hefðbundnu mörkuðu tekjur og á því er ekki mikil breyting. Strax á bls. 3, þar sem flugvellirnir í grunnnetinu eru flokkaðir niður, tók ég eftir því að í stóru áætluninni sem lögð var fram fyrir einhverjum missirum síðan er Keflavík inni í grunnnetinu en er aftur komin út úr því í áætluninni 2003--2006. Ég þykist vita af hverju það er en vil engu að síður spyrja hæstv. samgrh. hverju það sætir að Keflavík skuli tekin þar út.

Hins vegar verð ég að segja, sem kemur auðvitað heim og saman við það sem ég fjallaði um áðan um ferðatíma fólks til og frá höfuðborgarsvæðinu, að hann sé þrír og hálfur tími, að nokkrir litlir staðir úti á landi verði að búa að almennilegum flugvöllum sem þurfa þá að vera í grunnnetinu til að hægt sé að ná þessu markmiði sem ég gat um áðan. Ég vil fagna því að Grímseyjarflugvöllur skuli kominn inn í grunnnetið en spyr á móti hverju það sætir að flugvellir í Gjögri og Vopnafirði skuli ekki komnir þar inn. Svo ég taki dæmi eins og Vopnafjörð þá munum við á næstu árum ekki geta séð til þess að Vopnfirðingar komist til og frá höfuðborgarsvæðinu á þremur og hálfum tíma nema þar sé vel upp byggður flugvöllur og flugsamöngur til staðarins tryggðar. Þess vegna spyr ég: Hvers vegna er Vopnafjörður ekki kominn inn á grunnnetið eins og Grímsey, sem ég fagna auðvitað mjög?

Varðandi siglingamálaáætlunina ber að fagna því að hér er um áætlun að ræða sem tekur yfir þær mörgu áætlanir sem áður var unnið eftir, þ.e. hafnaáætlun, sjóvarnaáætlun og langtímaáætlun um öryggi sjófarenda. Þær falla undir þessa áætlun sem heitir siglingamálaáætlun. Það er hið besta mál.

Þarna er fjallað um framkvæmdir í höfnum landsins sem eru sífellt að breytast. Skipin eru að stækka og annað slíkt og dýpið þarf að vera meira. En þarna er líka getið um hvernig framlag ríkisins til hafnarframkvæmda muni minnka seinni hluta stóru áætlunarinnar. Þá komum við að því sem getið er um í þessari áætlun, stærri áætlun. Nokkur lagafrumvörp eru nú í undirbúningi sem geta haft áhrif á fjárveitingar til siglingamála í þá átt að fjármögnun flytjist frá ríkissjóði til eigenda skipa eða notenda hafna. Dæmi um þetta eru frumvarp til laga um breytingu á lögum um eftirlit með skipum og frumvarp til nýrra hafnalaga.

Þetta er það sem ég sé mestu ástæðuna til að gagnrýna við fyrri umr., að enn ætli hæstv. ríkisstjórn að leggja fram hafnalagafrv. og reyna að knýja það í gegnum þingið. Það hefur þær afleiðingar sem kemur fram í þessu, að fjárflæði frá ríkissjóði til hafnarsjóða mun stórminnka. Ég tel að þetta sé eitt hið versta sem áformað er í þessari áætlun.

Hér er jafnframt fjallað um vakstöð siglinga, sem ég kem reyndar að síðar. Reyndar er líka til umræðu seinna í dag annað atriði í þeim efnum.

Þá kem ég að stærsta liðnum, vegáætluninni. Hún er náttúrlega langstærsti liðurinn og eins og komið hefur fram erum við ekki að tala um neina smáræðis peninga í þessari samgönguáætlun, við erum að tala um að eyða 240 milljörðum á tólf árum eða 20 milljörðum á ári til reksturs, viðhalds og alls þess sem þessi áætlun tekur til í þessum þremur meginflokkum samgangna.

Það er auðvitað skemmst frá því að segja að vegáætlunin sú sem hér er, þ.e. fjögurra ára áætlunin, er mjög lík því sem við höfum áður stuðst við. Hér er fjallað um sama viðfangsefni. Hins vegar segir í skýrslunni að framlög til vegamála eru langt frá því að vera í takt við það sem ríkissjóður hefur í tekjur af umferðinni. Eftir því sem mér skilst gæti málið snúist um eina 12 milljarða kr. sem ríkissjóður hefur í skatta eða tekjur af umferðinni á einn eða annan hátt, skatta sem ekki fara til vegamála. Það er auðvitað mjög alvarlegt vegna þess að við vitum að verkefnin fram undan eru næg hvort sem er á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni.

Þetta er atriði sem vert er að gefa gaum. Ég vil nota þetta tækifæri og spyrja hæstv. samgrh. hvort til séu nákvæmar tölur um hver heildarskattlagning af umferðinni sé, hve mikið standi út af og hvað komi inn í vegáætlun til framkvæmda miðað við árið 2002. Ég hygg að þetta sé allt til og vænti þess að fá svar við þessum spurningum.

Stærsti hlutinn af þessari áætlun fjallar eins og áður sagði um vegamálin. Í þau fer langmestur hlutinn. Þar er auðvitað langdýrasta uppbyggingin og mest að gera. Það má segja að það hafi átt sér stað mjög miklar framfarir í vegakerfinu undanfarin ár og áratugi. Ástandið er víðast hvar mjög gott en allt of margir landshlutar búa við afleitt ástand á malarvegum þar sem jafnvel takmarkaður þungi er leyfður hluta af árinu. Eitt af brýnustu verkefnum í samgöngumálum er að leysa frumþarfir þeirra byggðarlaga varðandi vegasamgöngur. Það má með öðrum orðum segja, herra forseti, vegna þess að hér er veitt lítils háttar fé til minjasöfnunar og minjagerðar í samgönguáætlun, hvort heldur það er í flugi, höfnum eða vegum, að allt of margir vegakaflar á landsbyggðinni mundu flokkast undir samgönguminjasafn hjá ýmsum öðrum þjóðum. Það kemur auðvitað til af því að gera þarf langa vegi. Þetta eru dýrar framkvæmdir en engu að síður er ætlunin að taka lítils háttar á því hér þó að, eins og ég sagði í upphafi máls míns, við getum alltaf haft aðrar skoðanir á því hve langt eigi að ganga en þarna vantar mikið upp á.

Annað fjárfrekt verkefni er að endurbæta vegakerfið á höfuðborgarsvæðinu. Þörfin fyrir það hefur náttúrlega aukist í framhaldi af hinum miklu flutningum fólks af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins ásamt mikilli bílaeign landsmanna. Með öðrum orðum er það svo, herra forseti, að ýmsir vegir sem hannaðir voru fyrir 10--30 árum anna alls ekki þeirri umferð sem er í dag. Auk þess er umferðin miklu hraðari. Þess vegna er þetta mikilvægt verkefni. Það hlýtur að vera verkefni Alþingis að finna eðlilegt jafnvægi milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis, sjá til þess að farið verði í þær framkvæmdir sem brýnastar eru á þessum landsvæðum, ef þannig má að orði komast.

Þetta vildi ég segja, herra forseti, í upphafi umfjöllunar minnar um þessar tvær miklu áætlanir sem hæstv. samgrh. hefur mælt fyrir. Ég mun kannski koma hér síðar í dag til að fjalla um aðra þætti. Ég hef reynt að fara í gegnum þetta almenns eðlis. Ég segi því það eitt hér að lokum þar sem ég á sæti í hv. samgn. að ég hlakka mjög mikið til að vinna að þessu mikla verkefni. Ég minni jafnframt á að stærsti hlutinn, sá hluti sem oft er mest deilt um á hinu háa Alþingi, þ.e. um skiptingu vegafjár, verður unninn á hefðbundinn hátt af þingmönnum viðkomandi kjördæma eða þingmönnum gömlu kjördæmanna. Þess ber að geta að þó að gömlu kjördæmin verði ekki notuð hvað varðar kosningar til Alþingis er ekkert sem segir að nýju kjördæmin skuli vera notuð til skiptingar vegafjár eða þess háttar. Þetta má því vinna eins og gert hefur verið undanfarin ár. Ég hlakka mjög til að taka þátt í þeirri vinnu.