Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 14:57:25 (3355)

2003-02-04 14:57:25# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[14:57]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Það kann kannski að koma fram við meðferð þessa máls í hv. samgn. hverjir skattar ríkisins eru af umferðinni. Ég tel mjög mikilvægt að draga það fram. Ef það er rétt sem ég hef heyrt, að það gætu verið í kringum 12 milljarðar sem fari ekki til umferðarmála og vegagerðar, þá eru það ansi miklir peningar sem almenningur borgar í skatta af umferðinni sem ekki fer í að bæta samgöngur. Þannig hefur auðvitað verið í fjöldamörg ár. Við getum rétt ímyndað okkur hvernig ástandið í vegamálum væri ef meira af því fé sem almenningur borgar vegna umferðar færi til vegagerðar.

Hæstv. ráðherra er ekki sammála mér um það að almenningssamgöngur séu í skötulíki. Sá ágreiningur verður þá bara að vera milli okkar. Ég held hins vegar að það sé töluverð brotalöm í almenningssamgöngukerfinu. Ég er ekki að kenna einum eða neinum um það en ég tók það skýrt fram áðan að ég held að það sé háttur okkar Íslendinga að nota ekki almenningssamgöngur mikið.

Hér var fjallað um allsherjarútboð í almenningssamgöngum 2005. Það er auðvitað hlutur sem er verið að vinna að og vonandi verður það til þess að bæta almenningssamgöngur í landinu.

Varðandi hafnalagafrv. langar mig að ítreka þá spurningu sem ég bar fram. Ég heyrði að hæstv. ráðherra sagði mikla sátt ríkja um hafnalagafrv. við Hafnasambandið. Ég veit að á síðasta þingi var ekki mikil sátt um það hafnalagafrv. sem við vorum að vinna með í samgn. Það var stoppað vegna ágreinings í stjórnarflokkunum. Ég ætla rétt að vona að sá ágreiningur haldi áfram og það frv. komi ekki fram. Mig langar að ítreka spurninguna mína: Er það virkilega svo að það frv. eigi að koma fram á næstu dögum eða áður en þessu þingi lýkur?