Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 15:23:14 (3360)

2003-02-04 15:23:14# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[15:23]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. að það hefur ekki verið ákveðið að ráðast í þessar framkvæmdir fyrir austan þó að líkur á því séu mjög sterkar. Ég vitnaði einmitt til greiningardeildar Búnaðarbanka Íslands um hugsanleg áhrif af þeim framkvæmdum á efnahagslífið ef af þeim yrði og tillagna þeirra. Ég vitnaði líka, í andsvari við ræðu hæstv. ráðherra, til mats efnahagsskrifstofu fjmrn. sem gekk út á hið nákvæmlega sama. Þannig að ég held að í þessu máli sé hættulegast að stinga höfðinu í steininn ... --- herra forseti, þ.e. stinga höfðinu í sandinn og vera ekki tilbúinn til nauðsynlegra aðgerða ef á þarf að halda.

Ég rakti það líka og rökstuddi í máli mínu að ég teldi að þessir landshlutar tveir, Norðausturland og Vestfirðir, byggju við slíkt ástand í samgöngumálum að það réttlætti að aðstæður þeirra væru skoðaðar sérstaklega með tilliti til þess að hraða framkvæmdum. Nú liggur fyrir, herra forseti, að gert er ráð fyrir fjármagni til þessara verkefna í áætlun á næstu árum. Annað eins hefur nú verið gert og að taka lán til að flýta þessum framkvæmdum án þess að það hafi áhrif á aðrar framkvæmdir.

Ég tel mestu máli skipta að fara að þeim þjóðarvilja að taka á samgöngumálum þessara landshluta. Í ljósi þess eru þessar upphæðir ekki af þeirri stærðargráðu, ég tala nú ekki um ef efnahagsástandið væri jafnvel þakklátt fyrir þær, að ekki væri hægt að taka þessar upphæðir að láni og flýta framkvæmdum þannig að það truflaði ekki önnur verkefni.

Herra forseti. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að þessa leið væri vel hægt að fara.