Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 15:26:52 (3362)

2003-02-04 15:26:52# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[15:26]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Það ætti að vekja áhyggjur ef hv. þm. Hjálmar Árnason, sem jafnframt er formaður iðnn., gerir sér ekki betri grein fyrir framvindunni sem við stöndum frammi fyrir verði af risaframkvæmdum fyrir austan, þ.e. efnahagsáhrifum þeirra. Ef hv. þm. og formaður iðnn. telur nóg að hugsa til þess þegar þar að kemur þá er það dapurlegt, ef fyrirhyggjan er ekki meiri en svo. Það er sérstakt áhyggjuefni.

Hitt er svo aftur annað mál að ég er ekki svo smásmugulegur að hugsa þetta mál í einstökum kjördæmum. (HjÁ: Nú?) Ég er hreinlega að hugsa um byggðir sem búa við afar mikla sérstöðu hvað samgöngur varðar, byggðir á Norðausturlandi og byggðir á Vestfjörðum. Mér finnst mjög sérstakt ef hv. þm. getur lagt að jöfnu samgönguaðstæður þess fólks sem býr á þessu svæði, sem eru jafnmiklir samborgarar okkar og aðrir íbúar landsins, við samgöngur almennt. Eiga þeir ekki að fá notið sömu grunnréttinda, sem samgöngur eru, til jafns við aðra? Þessir landshlutar búa við svo mikla sérstöðu í samgöngumálum að þeir eiga að mínu mati að njóta sérstaks forgangs. Þar skiptir engu máli hvort landið er eitt, tíu eða fimmtíu kjördæmi.