Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 15:33:16 (3365)

2003-02-04 15:33:16# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[15:33]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Hér eru til umræðu tvær merkilegar þáltill. Í rauninni er grunnurinn að þeim tólf ára áætlun, till. til þál. um samgönguáætlun til ársins 2014 og hins vegar á þeim grunni fjögurra ára áætlun. Ég held að óhætt sé að segja að hér er um afskaplega merkilegar áætlanir að ræða. Ef við lítum fyrst á tólf ára áætlunina er þetta merkilegt plagg því að hér er í fyrsta sinn mælt fyrir samgöngufé eftir samræmdri áætlun um flug, hafnir og vegi. Er það í fyrsta sinn sem það er gert og það eitt teljast tíðindi út af fyrir sig.

Í annan stað held ég að þetta hljóti að teljast merkilegar áætlanir í ljósi þess að samkvæmt þeim er verið að veita meira fé til samgöngumála en nokkru sinni hefur verið gert áður. Það er í sjálfu sér merkilegt.

Við þekkjum söguna. Ég sé það af þeim sem hér eru inni í salnum að ekki þarf að fara mörg ár aftur í tímann til þess að bera saman hvernig samgöngur hafa breyst á tiltölulega skömmum tíma, samgöngur á milli landsfjórðunga, ekki síst á landi. En því miður eru í sögunni dapurleg dæmi þess að hið opinbera hefur verið að fjárfesta í mannvirkjum sem tengjast samgöngum án þess að þau væru í tengslum hvert við annað eða í tengslum við það sem hefur verið að gerast í atvinnulífi eða í byggðaþróun. Þess vegna er samræmd samgönguáætlun sem þessi afskaplega merkilegt plagg og löngu tímabært. Hér er verið að skoða, og spá í rauninni, gera áætlanir fram í tímann þar sem er byggt á tengslum byggða og byggðaþróunar. Grunnforsendan er sú að samgöngur á milli meginbyggðarkjarna séu í lagi.

Því miður er aðstaða þar misgóð. Á nokkrum stöðum þurfa íbúar og þegnar þessa lands að aka í forarvilpum, má segja, meðan aðrir njóta þess að fara í rennifæri á góðum vegum á milli staða. Markmiðið með þessari samræmdu áætlun er væntanlega það, eins og reyndar fram kemur í markmiðssetningunum, að koma á góðum samgöngubótum við helstu byggðarkjarna. Og hér hefur sannarlega margt gerst eins og ég nefndi áðan og í lok þessarar áætlunar rennur upp sá langþráði draumur að hringveginum verði lokað, þ.e. að það verði komið bundið slitlag á hringveginn og er sannarlega langþráð markmið og mikið afrek okkar fámennu þjóðar í tiltölulega stóru landi að hafa afrekað það á þó ekki lengri tíma. Og það er ánægjulegt --- hér gengur einmitt fram hjá hv. þm. Magnús Stefánsson sem mun hafa verið 1. flm. að þáltill. um að samræmd samgönguáætlun á borð við þessa yrði lögð fram. Það hlýtur að vera gaman fyrir hann að sjá draum sinn og orð verða að veruleika.

Forsendur að baki þessari áætlun eru afskaplega jákvæðar í heild sinni. Þar er litið til byggðaþróunar og byggðasjónarmiða sem vega að sjálfsögðu þar þungt því að samgöngukerfið er jú ein af grunnforsendum í atvinnulífi okkar og þjóðlífi öllu. En ég vil líka vekja athygli á hinum almenna texta í byrjun þar sem fjallað er um öryggissjónarmiðin. Ég fagna því sérstaklega að samkvæmt þessum samgönguáætlunum er gert ráð fyrir því að lagt verði í mikla rannsóknar- og kynningarvinnu er snerti öryggisþætti í samgöngum. Það hlýtur að vega afskaplega þungt þegar gerð er langtíma\-áætlun í vegamálum. Öryggið hlýtur að vera eitt af því sem skiptir mestu máli.

Þá fagna ég einnig sérstaklega þeirri áherslu sem kemur fram í hinum almenna texta um umhverfissjónarmiðin. Þar er okkur reyndar vandi á höndum því að, eins og fram kemur í textanum, þar er gert ráð fyrir því að fjallað verði m.a. um umhverfisskatta eins og víðast í heiminum er verið að ræða í dag í kjölfar Kyoto-bókunarinnar og þar fram eftir götunum. En einn mestur félagslegur kostnaður og heilbrigðiskostnaður í stórborgum heimsins er einmitt rakinn til útblásturs frá sprengivélum. Við þurfum að bregðast við nýrri tækni, sem er vonandi að ryðja sér til rúms, það hlýtur þá að koma fram í þessari samgönguáætlun og ég fagna því sjónarmiði. Hins vegar var hv. samgn. bent á það á fundi með fulltrúum samtaka í ferðaþjónustu um síðustu helgi að áherslur ferðaþjónustuaðila eru kannski með örlítið öðrum hætti og hefðu þeir viljað hafa meira samráð um frumgerð þessa. Það verður auðvitað skoðað í hv. nefnd.

En, herra forseti, ég tel að hér sé í það heila tekið afskaplega metnaðarfull áætlun þar sem lagt er upp með ákveðnar grunnforsendur sem vonandi munu halda. Að sjálfsögðu, eins og fram hefur komið í máli manna, er þörfin afskaplega mikil og hún snýst um meira fé, að það þyrfti að stækka kökuna. En það eru jú margir útgjaldaliðir og þetta er það fé sem úr er að spila. Þá hefst hinn mikli slagur um að skipta því á milli kjördæma og þar skipta að sjálfsögðu faglegar forsendur, það sem hér hefur verið vikið að, afskaplega miklu máli. Ég hygg að ekki síst núna á kosningavetri verði þessi slagur erfiður og hefur það svo sem endurspeglast í ræðum manna hér, á eftir að gera síðar í dag og enn meira þegar málið kemur til hv. samgn. Það er skipting vegafjár og skipting takmarkaðs fjár í metnaðarfulla samgönguáætlun.

Það er rétt að vekja athygli á því, bara til að draga fram þörfina, að það munu vera u.þ.b. 80 einbreiðar brýr á hringveginum einum, þar af rúmlega 40 í hinu fagra Suðurkjördæmi. Það er mál sem snertir öryggisþætti. Á það hefur verið bent að vegir á Vestfjörðum og norðausturhorninu eru í mun lakara ástandi en víðast annars staðar. Bent hefur einmitt verið á að milli jafnvel ágætra byggðarkjarna í þeim héruðum þurfi menn að aka í forarvilpum enda ber samgönguáætlunin þess merki að markmiðið sé að lyfta þeim fjórðungum upp úr forarsvaðinu svo að menn komist á þokkalega vegi. Það sést auðvitað í því hvernig fjárveitingar eru og það er undir þessu markmiði að tengja saman alla helstu byggðarkjarna.

Ég lýsi, herra forseti, sem sagt miklum stuðningi við þau metnaðarfullu markmið sem þarna eru þótt endalaust megi deila um það hvort meira hefði átt að fara í þetta kjördæmið eða hina framkvæmdina og þar fram eftir götunum. Það er alltaf spurningin um forgangsröðun samanber það sem ég nefndi hér um einbreiðar brýr, mikla slysavalda.

Það eru þó tvö atriði sem ég vil sérstaklega gera að umtalsefni enda hafði ég um þau fyrirvara í mínum þingflokki og lýsi honum hér með. Það er annars vegar um að ræða svokallaðan Suðurstrandarveg frá Grindavík til Þorlákshafnar. Ég tel, og er ekki einn um þá skoðun, að við kjördæmabreytinguna hafi því beinlínis verið lofað að Suðurstrandarvegur yrði byggður upp með varanlegum hætti og það yrði gert á allra næstu árum. Því miður sér þess ekki stað í þessari samgönguáætlun og um það snýst fyrirvari minn. Undir þetta sjónarmið mitt hygg ég að taki flestir þingmenn af þessu svæði en ég vek athygli á því sem sveitarstjórnir, bæði austan og vestan Suðurstrandarvegar, hafa lýst, núna síðast í ályktun frá Sambandi sveitarfélaga á Suðurlandi auk sveitarstjórna í Árborg, Ölfusi, Hveragerði, Grindavík og víðar. Því til viðbótar vil ég nefna fjölmarga ferðaþjónustuaðila víða á Suðurlandi og samtök í ferðaþjónustu sem telja að Suðurstrandarvegur sé eitt lykilatriðið í að efla ferðaþjónustu, ekki síst úti á landsbyggðinni, enda má ætla að flestir ferðamenn erlendir sem hingað koma komi til landsins til að njóta íslenskrar náttúru, menningar og fegurðar.

Tími minn er naumur þannig að ekki gefst ráðrúm til að fara yfir fleiri rök en fyrir utan loforð vegna kjördæmabreytinga vil ég nefna atvinnuhætti eins og með ferðamálin og ekki síður flutning með fiskafurðir. Ég vil líka nefna öryggissjónarmiðið út frá því að Reykjanesskaginn er jú eldvirkt svæði og jarðfræðingar segja að þar geti hvenær sem er brotist út eldgos. Þá er nauðsynlegt að hafa flóttaleið fyrir hátt í 20 þús. manna byggð. Þá má ekki gleyma því að það eykur bara fjölbreytileika fyrir íslenska og erlenda ferðamenn að geta farið þessa skemmtilegu leið.

Þetta var annar fyrirvari minn um stuðning við þetta merkilega mál. Síðan get ég ekki látið hjá líða að nefna þjóðleiðina til Vestmannaeyja sem nokkuð hefur verið í umræðu --- þjóðleiðin til Vestmannaeyja liggur nefnilega um sjó af augljósum ástæðum --- a.m.k. enn þá. Menn eiga sér jú drauma til lengri tíma um jarðgöng þar á milli en þau munu ekki koma í bráð, ég held að það sé alveg ljóst. Nú er það svo að Vestmannaeyingar, sem hafa bent á þetta sem sína þjóðleið, eru þeir þegnar landsins sem þurfa að greiða allháan og hressilegan toll til þess að komast um og geta ferðast, hvort heldur þeir fara með flugi eða ferju, og það tekur þá um þrjár klukkustundir að fara frá Vestmannaeyjum til Þorlákshafnar --- þegar viðrar. Það kostar þá og þar fram eftir götunum.

Nú hefur verið haldinn fjölmennur borgarafundur sem ég veit að hæstv. ráðherra sat þar sem vilji Vestmannaeyinga kom afskaplega skýrt fram. Krafa þeirra er beinlínis sú að það komi ný ferja á milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja til þess að stytta siglingaleiðina á milli.

[15:45]

Aðilar í ferðaþjónustu halda því fram að þriggja tíma sigling aðra leiðina slái í rauninni ferðamannaparadísina Vestmannaeyjar að nokkru leyti út af borðinu, en klukkutími, einn og hálfur tími í siglingu mundi gerbreyta þar forsendum. Eins og atvinnuástand er þar má segja að það sé ekki ósanngjörn krafa Vestmannaeyinga að þegar í stað verði gripið til þeirra aðgerða að koma með nýtt skip þannig að Vestmannaeyingar komist í nútímalegt samband, þjóðvegasamband má segja, við meginlandið.

Ég sé ekki nokkurs staðar stafkrók bregða fyrir í þessari ágætu samgönguáætlun um að gert sé ráð fyrir þeirri lausn. Á vegum Vestmannaeyjabæjar og samgrn. er starfandi svokallaður samgönguhópur, en nokkuð hefur dregist að hann skilaði af sér, en mér skilst að nú styttist óðfluga í að þessi samgönguhópur skili af sér og þar munu væntanlega og ég held að menn hljóti að búast við því að þar komi metnaðarfullar tillögur í anda vilja íbúa Vestmannaeyjabæjar, samanber borgarafund og undirskriftalista. En ég sé því ekki bregða fyrir í þessum samgönguáætlunum og ég hlýt því að spyrja hæstv. ráðherra með hvaða hætti það verði gert.

Þessi tvö mál, herra forseti, Suðurstrandarvegur og ferja til Vestmannaeyja eru þeir fyrirvarar sem ég hef lýst um stuðning við þetta og auðvitað mætti tína til önnur atriði, en ég vil nefna þessi atriði sérstaklega.

En, herra forseti, ég ítreka að í það heila tel ég samgönguáætlunina merkilega, veittir eru meiri fjármunir til samgöngumannvirkja á Íslandi en nokkru sinni og hér er um samræmda áætlun að ræða og ég hygg að í lok samgönguáætlunar 2014 fáum við að sjá enn betri samgöngubætur en við höfum upplifað á síðustu áratugum á Íslandi og það verði enn betra landslag og þar af leiðandi betra mannlíf hér á landi.