Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 15:52:48 (3368)

2003-02-04 15:52:48# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., HBl
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[15:52]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Sú samgönguáætlun sem hér liggur fyrir grípur að sjálfsögðu á öllum helstu þáttum samgöngumála og er þar margt fróðlegt og athyglisvert sem fram kemur. Auðvitað er það ávallt svo að þingmenn hver í sínu kjördæmi festa fyrst augun á því sem þá varðar helst og vegna þess að peningar eru ónógir og vegna þess að kröfur til gæða veganna hafa farið vaxandi, t.d. er breidd helstu þungaflutningaleiða nú sjö og hálfur metri í staðinn fyrir sex og hálfur áður, þá veldur það því að ekki er hægt að standa við þær gömlu áætlanir sem við höfðum. Að ýmsu öðru leyti hefur verið tekin ákvörðun um að vanda vegagerð meira en menn þorðu áður að gera til að tryggja öryggi vegfarenda og til að tryggja að leiðunum sé hægt að halda opnum í mismunandi árferði.

Ég ætla aðeins að víkja að nokkrum höfuðatriðum í sambandi við vegáætlun eins og hún horfir við mér sem þingmanni fyrir Norðurl. e.

Ég vil í fyrsta lagi lýsa ánægju minni með það að nú skuli ákveðið að göngin til Siglufjarðar verði boðin út í þessum mánuði. Við erum þar að tala um að tryggja byggð og samgöngur út með Eyjafirði. Þar búa rétt um 4.000 manns og öldungis er ljóst ef við horfum á atvinnusamsetningu Ólafsfjarðar og Siglufjarðar sem dæmi, að mikið hagræði er í því fólgið að göngin komi til að sjómennirnir á þessum stöðum báðum geti fyrirvaralaust farið um borð í skipin eða komist heim til sín og eins til þess að þjónustufyrirtæki á þessum stöðum báðum geti þjónað skipunum, hvort sem þau koma að landi í Ólafsfirði eða Siglufirði.

Eins og þeir sem þarna eru kunnugir vita er eins og nú viðrar í dag um 240 km milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar í staðinn fyrir 15. Ekki er hægt að lenda flugvél á Siglufirði þegar rökkvar og ef minnsti hliðarvindur er. Þess vegna er öldungis ljóst að göngin eru mjög þýðingarmikil og raunar óhjákvæmileg. Og það er hægt rétt svona til samanburðar að minna á að uppi voru raddir um að óþarfi væri að göngin á sínum tíma fyrir vestan færu til Suðureyrar við Súgandafjörð. Ég var hins vegar fastur á því að nauðsynlegt væri að göngin næðu einnig til Suðureyrar. Eins og komið hefur í ljóst var það rétt ákvörðun. (Gripið fram í: Var búið að ...?) Það var einn þingflokkur sem ályktaði um það, hv. þingmaður, þingflokkur Alþýðuflokksins, að göngin ættu ekki að ná til Suðureyrar við Súgandafjörð. En í þeirri ríkisstjórn Davíðs Oddssonar voru ráðherrar úr Alþýðuflokki og Sjálfstæðisflokki, svo það var að sjálfsögðu rætt í ríkisstjórninni hvort rétt væri að fara til Suðureyrar. Það varð ofan á að fara þangað og kom í ljós að það var rétt ákvörðun.

Einnig er vert að hafa í huga að göng eins og Siglufjarðargöngin eru meira en rétt vegurinn. Þau göng hafa mikla þýðingu í sambandi við hvers konar þjónustustarfsemi. Í fyrsta lagi verður skemmra fyrir Siglfirðinga að sækja þjónustu til Akureyrar. Hægt er að byggja upp margvíslega þjónustu út með firði sem of fátt fólk er nú til að standa undir. Ýmis smáþjónustufyrirtæki munu rísa þar. Sjúkrahúsið í Siglufirði mun nýtast betur og þar fram eftir götunum.

Öll menningarsamskipti verða léttari og þar að auki liggur það fyrir að byggðirnar við Eyjafjörð vilja sameinast flestar hverjar í eitt sveitarfélag: Akureyri, Dalvík, Ólafsfjörður, Siglufjörður og ég hygg að Hrísey sé inni í þeirri mynd, jafnvel Arnarneshreppur og fleiri hreppar. Þessi göng hafa því líka þýðingu með þeim hætti að styrkja sveitarstjórnarmálin.

Loks hafa göngin mikla þýðingu fyrir ferðaþjónustu, en ég hygg að allir flokkar nú tali mikið um að nauðsynlegt sé að styrkja grunnviði ferðaþjónustunnar. Samgöngur eru þar auðvitað númer eitt, tvö og þrjú. Og Síldarminjasafnið í Siglufirði er alveg sérstakt í sinni röð og mætti vera öðrum til fyrirmyndar um hvernig eigi að byggja slíkt.

Ég vil í annan stað, af því ég tala um ferðaþjónustuna, minna á að hér er nokkru fé veitt til vegar niður með Jökulsá svo hægt sé að koma að Dettifossi árið um kring. Eins og nú standa sakir hefur ekki náðst fullt samkomulag um hvort slíkur vegi eigi að liggja vestan eða austan ár, en það er nægur tími. Við höfum næsta sumar til þess að glöggva okkur betur á þeim upplýsingum sem Vegagerðin ræður yfir um þessi mál og ég geri mér vonir um og tel óhjákvæmilegt raunar og hægt samkvæmt þeirri vegáætlun sem hér liggur fyrir að hægt sé að bjóða Dettifossveg út haustið 2004 og ég hygg þegar þar kemur sögu og raunar líka nú í samgn. æskilegt að það sé athugað hvort ekki sé hægt að styrkja þá vegagerð.

Þá vil ég í þriðja lagi ræða um nauðsyn þess að stytta leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur. Ég ásamt formanni samgn., hv. 8. þm. Reykv., Guðmundi Hallvarðssyni, lögðum fram þáltill. fyrir tveimur árum þar sem við báðum um að athugun yrði gerð á því að vegur yrði lagður sem næst beinni línu frá Reykjavík til Akureyrar og kýs ég nú að fara örlítið yfir þær hugmyndir.

Meginhugmyndin er sú að stytta leiðina eins mikið og nokkur kostur er, eða um 81 km og þá er gert ráð fyrir ef maður leggur af stað frá Reykjavík að fara Mosfellsheiði, um Þingvelli og Kaldadal, síðan um Hallmundarhraun, yfir Stórasand sunnan Blöndulóns og yfir Skagafjörð í Norðurárdal. Þetta yrði eins og ég sagði 81 km stytting, mundi kosta 5.550 milljónir, en þá er það að athuga að þegar hefur verið ákveðið að ráðast í veginn um Kaldadal þannig að sá kostnaður hlýtur þá að dragast frá þegar nettókostnaður er hafður í huga.

[16:00]

Sömuleiðis liggja fyrir hugmyndir um að leggja veg yfir Kjöl. En ef slíkt yrði gert yrði einnig óhjákvæmilegt að beina honum sunnan Mælifells í Skagafjörðinn og upp í Norðurárdal. En þó svo að kostnaður við þessa vegagerð sé tekinn með þá næmi kostnaður á kílómetra í styttingunni ekki nema 68 millj. kr. Það er athyglisvert í ljósi þess að í skýrslu um styttingu leiðar á hringveginum kemur í ljós að ef stytta á t.d. um Svínavatn í Húnavatnssýslu um 15,5 km yrði slík stytting um 58 millj. kr. á kílómetra, en allar aðrar styttingar dýrari, þ.e. um Hornafjarðarfljót 82 millj. og um Svínafells- og Skaftafellsá 80 millj. Ef við tölum um veg utar í Lóninu þá eru það 200 millj. og þar fram eftir götunum, um Varmahlíð 143 millj. Því er greinilegt að þessi stytting er mjög hagkvæm ef tekið er tillit til hvers kílómetra sem leiðin styttist um.

Ef við göngum enn lengra og reiknum dæmið þannig að vegur verði hvort sem er lagður um Kaldadal og að vegur verði hvort sem er lagður frá Kili upp í Norðurárdal fyrir norðan þá næmi nettókostnaður á hvern kílómetra á þessari leið ekki nema 25 millj. kr. á kílómetra, sem er auðvitað langsamlega hagkvæmasta stytting sem við getum fundið hvarvetna á landinu.

Ef við horfum á þessi mál út frá öðrum sjónarmiðum, t.d. út frá umhverfissjónarmiðum, þá sjáum við að auðvitað mundi draga úr útblæstri sem þessu næmi því aðalþungaflutningar landsins eru á norðurleiðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur.

Ef við íhugum þetta mál t.d. út frá þeim hringvegi sem nú er þá er ljóst að hann er víða þröngur og það þarf að endurbyggja hann. Allar slíkar lausnir eru mun dýrari en þessi vegna þess að ávinningurinn og hagræðing af þessum vegi yrði þá ekki til staðar. Þessi vegur yrði að sjálfsögðu byggður fyrir þungaflutninga og mundi draga verulega úr slysahættu.

Nú halda ýmsir því fram, og er það alveg réttmæt gagnrýni, að Kjalvegur liggi hátt og þess vegna sé ekki við því að búast að auðvelt yrði að halda honum opnum allt árið um kring. Þá er hægurinn á að fara um byggð niður með Hvítá. Það kostar ekki mikið í þessu samhengi, kannski 250 millj. kr. í heild sinni þannig að það breytir ekki þeirri mynd sem ég er hér að draga upp. Auðvitað hlýtur það að vera markmið okkar allra þegar við erum að hugsa um grunnleiðir, grunnvegakerfi landsins, að gera okkur glögga grein fyrir því hvar þungaflutningarnir eru og hvernig við getum greitt fyrir þeim, dregið með því úr kostnaði og dregið með því úr útblæstri eiturlofttegunda í andrúmsloftið.

Ef við veltum fyrir okkur t.d. samkeppnisstöðu iðnaðarins við Eyjafjörð og á Akureyri eða samkeppnisstöðu iðnaðar á Austurlandi eða í Skagafirði þá er einnig augljóst að sá samkeppnisiðnaður mundi hafa ótrúlega mikið hagræði af því að hægt yrði að stytta leiðina þannig. Ég sé að hér mér til vinstri handar er mikill áhugamaður eins og ég er um að lækka flutningskostnað, hv. 3. þm. Norðurl. v., Kristján L. Möller. Við báðir höfum mjög beitt okkur fyrir því að reyna að lækka flutningskostnaðinn, bæði vegna þess að hann kemur inn í vöruverðið og einnig til þess að styrkja atvinnurekstur úti á landi. Við hljótum líka báðir tveir að festa augun við úrræði eins og þessi sem fela það í sér að bæta rekstrarskilyrði og rekstrarforsendur, ekki aðeins atvinnufyrirtæka fyrir norðan heldur líka rekstrarforsendur þeirra heimila sem þar eru.

Með hliðsjón af öllu þessu og líka með hliðsjón af því að þessi nýja leið yrði mjög skemmtileg fyrir ferðaþjónustuna --- hún opnar möguleika á tveim nýjum hringleiðum, þ.e. annars vegar norður í Skagafjörð og síðan hringveginn til baka eða öfugt. Einnig styttist leiðin norður þannig að menn geta farið norður þessa leið og til baka um Kjalveg eða eftir atvikum Sprengisand --- þá er ljóst að slík stytting á vegalengd, 81 km, gjörbreytir öllum viðhorfum í sambandi við hluti eins og þessa. Ég vil þessa vegna beina því til samgn. að sjá til þess að nægilegt fé verði veitt til rannsókna á þessari vegagerð. Ég geri mér grein fyrir því að nokkurn tíma tekur að undirbúa hana, glöggva sig á vegarstæði, glöggva sig á umhverfisþætti málsins.

Ég vil að síðustu segja að sá hluti vegarins sem liggur frá Borgarfirði norður í Skagafjörð kostar ekki meira en, eftir því hvernig við viljum á það horfa, kannski 2 milljarða, kannski 3,5 ef allt er talið. Hann kostar ekki meira en svo að hægt verður að standa undir honum með veggjaldi, hygg ég, þegar komið er fram á árið 2006, 2007 eða 2008, þegar þessi vegur yrði tilbúinn. Við erum auðvitað ekki að tala um það að hefja þessa vegagerð á næsta ári. Við erum að tala um að nauðsynlegt er að standa vel að slíkri vegagerð. Það þarf að glöggva sig á veðurfari og veðráttu því þessi vegur liggur hátt. En eins og veturinn hefur verið nú þá sjáum við að ekkert hefði verið því til fyrirstöðu að aka slíkan veg hvern einasta dag á þessum vetri fram að 20. janúar eða svo. Hægurinn hefði verið á að halda veginum opnum fram á þennan dag vegna þess að það er ekki mikill snjór á hálendinu, síður en svo, og engin fyrirstaða þegar vegir eru góðir nema þá í þröngum fjallagiljum, t.d. í Víkurskarði eða einhverju þvílíku. En þegar við erum að tala um hásléttur þá er ekki því að heilsa að snjór setjist á slíkum stöðum á vegina.

Að síðustu vil ég beina því til formanns samgn. að athuga hvort ekki sé rétt að taka aftur upp hugmyndir um að veita nokkurt fé til að styrkja beint flug milli Egilsstaða og Akureyrar vegna þeirra auknu umsvifa sem nú eru á Egilsstöðum og vegna þess hversu margir Austfirðingar sækja bæði menntun og heilbrigðisþjónustu til Akureyrar og í nokkrum mæli einnig austur.