Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 16:22:28 (3378)

2003-02-04 16:22:28# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[16:22]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir að það sé erfitt að finna leiðir til að lækka flutningskostnað nema með því að draga úr kostnaði, ég held að það sé deginum ljósara. Þau flutningafyrirtæki sem við höfum reyna að nota ýtrustu tækni eins og hv. þm. veit. Tölum aðeins um flutningskostnaðinn. Ef við horfum á vöruverð segir flutningskostnaðurinn ekki alla sögu þar eins og hv. þm. hefur stundum gefið í skyn. Við getum t.d. horft á pilsnerflösku og athugað hvað hún kostar í Bónus á Egilsstöðum. Það kemur í ljós að hún kostar 37 eða 39 krónur. Þar er hins vegar umboð fyrir Egil Skallagrímsson, og búðareigandi á Austurlandi sagði mér um daginn að hann fengi í heildsölu pilsnerflöskuna á 70--80 kr. Heildsöluverðið fyrir smákaupmanninn er hér um bil 100% hærra en útsöluverðið hjá Bónus.

Það vildi svo til að ég hitti fulltrúa þessarar ölverksmiðju fyrir austan og spurði um þetta. Af því að þetta var einkasamtal ætla ég ekki að fara frekar út í það en leyfi mönnum að velta fyrir sér hvort þetta sé ekki athyglisvert. Ég hafði hugsað mér að hafa samband við Samkeppnisstofnun og spyrja hana hvað hún telji hæfilegt að verðmunur frá sama fyrirtæki á Egilsstöðum megi vera mikill eftir því hvort maður er Páll eða séra Páll. Þar fyrir utan tekur Ölgerðin þátt í auglýsingakostnaði fyrir Bónus --- þar að auki --- svo í raun er verðið enn þá lægra en ég sagði.